Viðskipti innlent

Gistinóttum í október fjölgaði um 12% milli ára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Gistinætur erlendra gesta voru 77 prósent af heildarfjölda gistinátta í október.
Gistinætur erlendra gesta voru 77 prósent af heildarfjölda gistinátta í október.
Gistinætur á hótelum í október voru 158.500 samanborið við 140.500 nætur í október 2012. Gistinóttum fjölgaði því um 12 prósent milli ára. Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofu Íslands.

Þar segir að gistinætur erlendra gesta hafi verið 77 prósent af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum, sem var aukning um ellefu prósent frá októbermánuði 2012. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 17 prósent.

Þegar tölur yfir einstaka landshluta eru skoðaðar sést að gistinætur á hótelum höfuðborgarsvæðisins voru 112.400, sem er aukning um 7 prósent frá sama mánuði í fyrra. Á Suðurlandi voru 17.400 gistinætur í júlí samanborið við 13.700 í október 2012, sem er aukning um 29 prósent. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 26 prósent milli ára, en þær fóru úr 3.300 í 4.300. Á Norðurlandi voru gistinæturnar 12.500, sem er þrjátíu prósenta aukning. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinæturnar 4.800 talsins, sem var aukning um 35 prósent. Að lokum voru gistinætur á Suðurnesjum 7.000, sem er um 23 prósenta aukning frá október 2012.

„Gistinætur á hótelum fyrstu tíu mánuði ársins 2013 voru 1.792.879 til samanburðar við 1.589.796 fyrir sama tímabil árið 2012. Ef miðað er við sama tímabil árið 2012 þá hefur gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 13% á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 11%

Taka ber fram að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Tölurnar segja því ekki til um gistinætur á gistiheimilum né hótelum sem eingöngu eru opin yfir sumartímann,“ segir á vef Hagstofu Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×