Viðskipti innlent

Viðsnúningur í framleiðslu og mesti hagvöxtur frá hruni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hagvöxtur á Íslandi á þriðja ársfjórðungi þessa árs mældist 4,9 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Þetta er mjög hátt í alþjóðlegum samanburði og er niðurstaðan langt umfram spár. Ekki hefur mælst meiri hagvöxtur á einum ársfjórðungi frá hruni.

Um þetta segir í greiningu Arion banka: „Ekki hefur mælst meiri hagvöxtur á einum ársfjórðungi frá hruni en einnig má benda á að annar og þriðji ársfjórðungur þessa árs mynda bestu samliggjandi fjórðunga frá því fyrir kreppu.“

Þetta er merkilega mikið í alþjóðlegum samanburði. Fréttastofa Stöðvar 2 kynnti sér tölfræði. Þetta eru staðfestar tölur frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins:

Evrusvæðið (þau 17 ríki sem nota evruna) -0,4% samdráttur

ESB (ríkin 28) 0,1%

Bandaríkin 1,6%

Noregur 1,9%

Sviss 1,9%

Japan 2,6%

Ísland 4,9%.

Regína Bjarnadóttir, aðalhagfræðingur Arion banka segir þetta koma ánægjulega á óvart.

Hvað þýðir þetta eiginlega, er góðærið komið aftur? „Nei, það tel ég ekki en þetta eru einstaklega góðar tölur. Það sem ég tel jákvæðast við þetta er að hagvöxturinn er á mjög breiðum grundvelli. Við erum að sjá fjárfestingu aukast, útflutninginn og einkaneysluna. Við vorum hrædd um að hagvöxtur seinni hluta ársins yrði aðallega drifinn áfram af einkaneyslu en þetta er á miklu breiðari grunni sem er mjög jákvætt fyrir áframhaldandi vöxt,“ segir Regína.

Kemur þetta ekki dálítið á óvart því væntingavísitalan hækkaði í vor en lækkaði síðan mjög hratt í sumar og það voru kannski ekki teikn á lofti um svona tölur? „Jú, vissulega kemur þetta á óvart og þetta kemur held ég öllum greiningaraðilum á óvart. Flestar greiningardeildir voru að gera ráð fyrir hagvexti vel undir 3 prósentum fyrir árið. Við erum þegar komin með 3,1 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins þannig að það er augljóst að þetta er miklu hærra en greiningaraðilar sáu fyrir.“

Hvað þýðir þetta fyrir heimilin í landinu?Á fólk að sýna áfram ráðdeild? Hvað á fólk að lesa í þessar tölur? „Já, fólk á að sýna ráðdeild en þetta er kannski jákvætt fyrir hagvöxt næsta árs og tekjustreymi ríkissjóðs. Þannig að þetta styður frekar við fjárlagafrumvarp ríkisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×