Viðskipti innlent

Hækkun á húsnæði stærsti áhrifavaldur hækkunar á vísitölu neysluverðs

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Veruleg hækkun á markaðsverði húsnæðis er stærsti áhrifavaldur í hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember.
Veruleg hækkun á markaðsverði húsnæðis er stærsti áhrifavaldur í hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember. Mynd/Vilhelm
Veruleg hækkun á markaðsverði húsnæðis er stærsti áhrifavaldur í hækkun vísitölu neysluverðs í nóvember.

Vísitalan hækkaði um 0,36% milli mánaða í nóvember sem er heldur yfir væntingum, segir í frétt Íslandsbanka.

Án húsnæðis hækkar vísitalan um 0,20% frá október.

Húsnæðisliður í heild hækkar um 0,8% á milli október og nóvember sem vegur til 0,20% hækkunar vísitölunnar og skýrir þar með ríflega helming mánaðarhækkunar vísitölunnar nú. Þar af hækkar reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, um 1,4% á milli mánaða (0,19% í vísitölu neysluverðs).

Mest er hækkunin á íbúðaverði milli mánaða utan höfuðborgarsvæðisins, 2,5%. Þá hækkar fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,9% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæði stendur í stað milli mánaða.

Matvöruverð breyttist lítið í nóvembermánuði, en þar vó talsverð lækkun á verði ávaxta (-3,1%) og grænmetis (-2,4%) á móti verðhækkun á kjöti (0,9%), brauðmeti (0,6%), mjólkurvörum (0,8%) og sætindum (1,3%).

Af öðrum áhrifaþáttum nefnir bankinn að ferðir og flutningar hækkuðu um 0,1% á milli mánaða. Þar vógust á annars vegar 4,8% hækkun á flugfargjöldum til útlanda, og hins vegar 1,1% lækkun á eldsneytisverði. Þá hækkaði liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 0,6% (0,03% í vísitölunni), föt og skór um 0,3% (0,02% í vísitölu neysluverðs) og verð á heilbrigðisþjónustu hækkaði um 0,5% (0,02% í vísitölunni).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×