Innlent

Engin ríkisstjórn lifir að eilífu

Heimir Már Pétursson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir mikilvægt að utanríkisráðherra upplýsi hversu langt vinna við samningsmarkmið Íslands í mikilvægum málaflokkum eru komin í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann minnir á að engar ríkisstjórnir lifi að eilífu.

Í fyrirspurn sem Vilhjálmur lagði fram á Alþingi fyrir helgi spyr hann utanríkisráðherra hvort vinna hafi verið hafin við gerð samningsmarkmiða í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, byggðamálum og gjaldeyrismálum í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

Ef svo er vill Vilhjálmur  að ráðherra upplýsi um innihald þeirra og svari því hvort búið var að kynna þessi markmið fyrir Evrópusambandinu. Mikilvægt sé að fá þetta upplýst hvort sem viðræðum verði haldið áfram eða ekki. En Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hann voni að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið.

Hefur það þá nokkuð upp á sig að spyrja um þetta?

„Lífið heldur áfram og í gegnum tíðina hafa orðið stjórnarskipti af og til og mannaskipti. Enginn er eilífur í neinum stjórnarstól, hvorki ég né ráðherrar,“ segir Vilhjálmur sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd.  „Þannig að við skulum huga að því hvernig mál þróast,“ bætir hann við.

Það sé grundvallaratriði að fylgjast vel með og að umræðan taki mið af upplýsingum en ekki tilfinningum og fyrirframgefnum niðurstöðum í samningaviðræðum.



Ertu að spá því að það verði jafnvel breytingar á ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili?

„Það er kosið á fjögurra ára fresti og ég spái engu um þessa ríkisstjórn frekar en aðrar. Ég er kannski ekki að spá neinu fram í tímann en vek athygli á því að við erum hluti af Evrópu,“ segir Vilhjálmur.

Ekki liggur fyrir hvort núverandi ríkisstjórn boði yfirleitt til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna enda ekki mikill áhugi á því hjá heitustu andstæðingum Evrópusambandins innan ríkisstjórnarflokkanna.

„Það er alveg öruggt mál,  hvernig sem lyktir verða,  að það verður þjóðaratkvæðagreiðsla einhvern tíma um evrópumál. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla hlýtur alltaf að taka mið af upplýsingum og að upplýsingum sé miðlað nokkurn veginn jafnóðum. Og fyrirspurn mín er einmitt hluti af þeirri upplýsingamiðlun sem ég tel að sé nauðsynleg,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×