Innlent

Snjókoma raskaði flugi á Keflavíkurflugvelli

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Margir þurftu að bíða á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Margir þurftu að bíða á Keflavíkurflugvelli í morgun. Mynd/Pjetur
Talsverð röskun varð á brottför farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna snjókomu. Allt að tveggja klukkustunda töf varð vegna erfiðra veðurskilyrða sem ollu frestun.

Þungur og blautur snjór féll á flugbrautir Keflavíkurflugvallar og höfðu starfsmenn vallarins ekki undan að halda brautum vallarins auðum. Ofankoman hafði ekki áhrif á komur til landsins en brottför var frestað vegna aðstæðna.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, þá var brottför frestað vegna bremsuskilyrða. Blautur og þungur snjór var á brautum vallarins en við slíkar aðstæður skapast mjög slæm skilyrði.

Fjöldi farþega sátu fastir um borð flugvéla á meðan töfin stóð yfir, margir hverjir í allt að tvær klukkustundir. Flug er að komast í samt horf á ný og eru síðustu vélar, sem fara áttu fyrr í morgun, að hefja sig til flugs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×