Innlent

"Óumdeilt að SÁÁ hefur bætt þjóðfélagið“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Fullur vilji er að hálfu velferðarráðuneytisins að taka þjónustusamning ríkisins og SÁÁ til endurskoðunar. Heilbrigðisráðherra segir SÁÁ hafa bætt samfélagið allt en samtökin blása nú til stórsóknar með nýbyggingu við Vog og leita til almennings eftir stuðningi.

Áfram Vogur, afmælis- og baráttufundur SÁÁ verður haldinn í Háskólabíói í kvöld klukkan átta. Samtökin fagna nú þrjátíu og sex ára afmæli en sjúkrahúsið að Vogi er þrjátíu ára. Því verður blásið til mikillar veislu í kvöld þar sem John Grant, Hljómar og fleiri stíga á stokk. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana en hátíðarhöldin eru liður í símasöfnun SÁÁ til styrktar sjúkrahúsinu Vogi.

Á Vogi er verið að reisa nýja álmu og hlýtur það að teljast nokkuð ánægjulegt í ljósi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu síðustu misseri.

„Sjúklingahópurinn er að breytast. Eldra fólk kemur nú inn á vog og veikara, þetta eru langt leiddir sjúklingar, eiturlyfjafíklar og aðrir. Þetta fólk þarf betri þjónustu. Það gefur auga leið að þegar við byggjum við sjúkrahúsið að þá þurfum við hjálp þjóðarinnar. Við höfum góðvilja fólks og fyrirtækja og því leggjum við af stað með símasöfnun, segir Rúnar Freyr Gíslason, samskiptafulltrúi SÁÁ.“

 

Sjúkrarekstur SÁÁ er fjármagnaður með þjónustusamningi við íslenska ríkið. Sjúkratryggingar kaupa sautján hundruð innlagnir hjá SÁÁ en samtökin sinna árlega tvö þúsund og þrjú hundruð innlögnum. Þannig reiða samtökin sig að miklu leyti á sjálfsaflarfé og því getur almenningur nú styrkt starf SÁÁ símleiðis.

„Það er óumdeilt að starfsemi samtakanna hefur bætt líf marga, einstaklinga og fjölskyldna þeirra og þjóðfélagsins alls. Við erum með samning ríkisvaldið við SÁÁ sem við höfum lofað að taka til endurskoðunar. Ég vænti þess að þær viðræður fari fram í vetur. Ég er allur að vilja gerður til þess að endurskoða þennan samning, hvernig sú endurskoðun verður er allt of snemmt að segja til um.“

Hægt er að styrkja SÁÁ hér:

903-1001 – 1000 kr.

903-1003 – 3000 kr.

903-1005 – 5000 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×