Innlent

Ummæli borgarstjóra ekki í anda skipulagslaga

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mynd/Pjetur
Ummæli borgarstjóra um að staðsetning Reykjavíkurflugvallar sé mál Reykvíkinga eru ekki í anda skipulagslaga. Þetta segir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann hvetur borgarfulltrúa til að hafa hlutverk höfuðborgarinnar sem samgöngumiðstöð í huga þegar næstu skref eru ákveðin.

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, tók á móti fjölmennustu undirskriftarsöfnun til stjórnvalda frá upphafi í gær. Tæplega sjötíu þúsund manns hafa skrifað undir á vefnum Lending.is og hvatt til þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Borgarstjóri sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að vel hefði verið staðið að undirskriftarsöfnuninni og fagnaði frumkvæði fólks að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að andmæla áformunum.

Jafnframt ítrekaði Jón að málið varði aðalskipulag Reykjavíkur og benti á að stór hluti þeirra sem kvittuðu fyrir áframhaldandi innanlandsflugi í Vatnsmýri býr ekki í Reykjavík. Það væri því erfitt að taka afstöðu til þess.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ummæli borgarstjóra ekki í anda skipulagslaga þar sem landsmenn hafa rétt á að tjá sig um skipulagsmál.

„Mér finnst þessi undirskriftalisti merkilegur og ég er talsmaður þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Ég vil ekki sjá að það sé verið að hræra í skipulagsvaldi sveitarfélagana. Það er töluvert stór hluti Reykvíkinga á listanum þó að það eigi ekki skipta öllu máli. Að mörgu leyti finnst mér ég vera upplifa sömu umræðuna aftur og aftur. Ég vona innilega að borgarfulltrúar taki mark á þessu og hugsi þetta út frá höfuðborgarhlutverkinu og mikilvægi þess að höfuðborgin sé samgöngumiðstöð,“ segir Halldór.

Allir eiga umsagnarrétt um skipulag án tillits til lögheimilis og oft á tíðum eru hagsmunirnir miklir. Það má því spyrja hvort að Þjórsárver sé einkamál Gnúpverja, Mývatn einkamál Mývetninga, já eða Reykjavíkurflugvöllur einkamál borgarbúa. Mál sem þessi eru þó oft flókin enda er landið skipulagsskylt og samkvæmt skipulagslögum er sveitarfélögunum falið að annast gerð skipulagsáætlana. Það er því spurning hvort að Alþingi eigi að taka afstöðu í málinu og takmarka þetta skipulagsvald þegar þörf er á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×