Innlent

Fólk hefur orðið veikt á geði eftir sveppaát

Jakob Bjarnar skrifar
Þeir sem ætla að leggja sér til munns sveppinn Trjónupeðlu ættu að hugsa sig vel um.
Þeir sem ætla að leggja sér til munns sveppinn Trjónupeðlu ættu að hugsa sig vel um.
Nú er runninn upp sá árstími þegar þeir sem sækjast eftir vímu af sveppaáti fara á stjá. Vegna eiturefna í tilteknum sveppum getur neysla þeirra reynst stórhættuleg að sögn Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings.

Lögreglan handtók í nótt mann í Kópavogi sem var í annarlegu ástandi, vægast sagt. Hann öskraði, gólaði og veinaði af öllum lífs og sálarkröftum. Lögreglan telur að þetta sé vegna sveppaáts mannsins.

„Það er mjög líklegt að þetta sé Trjónupeðla, (Psilocybe semilanceata), sveppur sem vex á grasflötum og graslendi seint á haustin,“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur en hún starfar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri. Þar sem hún stundar svepparannsóknir. Hún segir virkni þessa svepps verulega.

„Það eru í honum efni sem virka svipað og taugaboðefni og virka þar með á heilann í fólki. Sem sér þá sýnir; liti og slíkt.“

Þetta eru sem sagt efni sem valda ofskynjunum svipað og LSD. Guðríður Gyða segir að nú sé sá tími að menn leiti sveppa til að komast í vímu. Þessi tiltekni sveppur ber aldin seint á haustin, oft þegar búið er að frjósa. Guðríður Gyða segir neysla sveppanna geta reynst hættuleg.

„Já, þetta getur víkkað upp einhverjar sprungur í sálarlífinu. Það er dæmi um fólk sem hefur orðið veikt á geði eftir svona reynslu. Svo getur fólk fengið það sem kallað er „slæm ferðalög“ eða „bad trips“. Fólk þarf að vera í góðu umhverfi og öruggt meðan á þessu stendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×