Innlent

Ísland tekur við formennsku í nefnd um opna lofthelgi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Á myndinni má sjá þegar 500 blöðrum var sleppt árið 2008 í Vín í tilefni þess að farið hafði verið í 500 eftirlitsflug á vegum nefndarinnar.
Á myndinni má sjá þegar 500 blöðrum var sleppt árið 2008 í Vín í tilefni þess að farið hafði verið í 500 eftirlitsflug á vegum nefndarinnar. mynd/afp
Ísland tók í gær við formennsku í samráðsnefnd samningsins um opna lofthelgi (e. Open Skies Treaty). 34 ríki eiga aðild að samningnum, þar á meðal Bandaríkin, Kanada, Rússland og fjölmörg ríki Evrópu.

Samningurinn tók gildi árið 2002 og markmiðið með honum er að auka traust og skilning á sviði öryggismála með því að heimila eftirlit úr lofti með hergögnum og mannvirkjum í aðildarríkjunum.

Aðildarríkin skiptast á að veita nefndinni formennsku í 4 mánuði í senn og Ísland mun fara með formennsku til 8. janúar á næsta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Utanríkisráðuneytinu hefur Ísland verið með í samstarfinu frá upphafi en samið var um opna landhelgi árið 1992 þó samningurinn hafi ekki verið fullgiltur fyrr en árið 2002.

Samningurinn er einn af þremur meginstoðum í því eftirlitskerfi- og afvopnunarkerfi sem varð til eftir að kalda stríðinu lauk. Þátttaka í alþjóðlegum afvopnunarmálum hefur lengi verið ein af megin áherslum íslenskra utanríkismála.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var greint frá því í ágústlok að alls hafi verið farið í eitt þúsund eftirlitsflugferðir frá gildistöku samningsins. Enn hefur þó ekki komið til þess að eftirlitsflug hafi farið yfir Ísland en alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík hefur verið notaður til að taka eldsneyti.

Fundir samráðsnefndarinnar fara fram í höfuðstöðvunum í Vín og fer fyrsti fundurinn þar sem Ísland fer með formennsku fram næstkomandi mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×