Sport

Glíman aftur inn á Ólympíuleikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Glíman er aftur orðin að Ólympíugrein eftir sjö mánaða fjarveru en Alþjóðaólympíunefndin ákvað í dag að taka glímuna aftur inn á leikana. Það vakti heimsathygli og sterk viðbrögð í febrúar þegar glímunni var kastað út af Ólympíuleikunum enda ein af greinunum sem keppt var í á fyrstu Ólympíuleikunum í Aþenu 1896.

Glíman hafði betur í baráttu þriggja íþróttagreina um eitt laust sæti á Ólympíuleikunum 2020 og 2024. Glíman fékk 49 atkvæði, sameiginlegt framboð frá hafnar- og mjúkbolta fékk 25 atkvæði og skvass fékk bara 22 atkvæði.

Það er keppt í tvennskonar glímu á Ólympíuleikum, grísk-rómverskri og svo frjálsri glímu. Íslenska glíman kemur því ekkert við sögu þarna.  

Forráðamenn glímunnar lögðu mikla áherslu á það að þeir væru búnir að taka til í greininni og færa hana til nútímans. Alþjóðasamband glímunnar kaus meðal annars nýjan forseta og konur fengu að taka meiri þátt í ákvarðanatöku í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×