Lífið

Bravó er barinn

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bravó-bræður, þeir Jón og Baldvin fyrir framan stað sinn en þar ríkir nú mikil opnunargleði.
Bravó-bræður, þeir Jón og Baldvin fyrir framan stað sinn en þar ríkir nú mikil opnunargleði.
„Hér ríkir gríðarleg gleði,“ segir Jón Mýrdal, nýjasti vertinn í bænum, í samtali við Vísi nú rétt í þessu. „Og aðal barinn. Bættu því við.“

Jón var að opna bar ásamt félaga sínum Baldvin Kristinssyni, að Laugavegi 22. Þeir hafa staðið í gagngerum endurbótum á húsnæðinu undanfarnar vikur. Opnunarhátíðin er yfirstandandi og fer ekki fram hjá nokkrum manni sem á leið niður Laugaveginn. Gleðin nær út á götu.  „Bravó er barinn. Svo verður kominn hér matseðill eftir tvær vikur eða svo.“

Jón er fyrrum útvarpsstjarna, skemmtikraftur, blaðamaður og kokkur á rækjutogara. Hann telur sig þannig hafa allt sem til þarf í að reka bar við Laugaveginn. Og gerir ráð fyrir því að gestirnir verði blanda af skemmtilegu fólki; skemmtikröftum, blaðamönnum og kokkum. „Það er líka skemmtileg tilviljun að í dag er 18. júlí, sem er einmitt afmælisdagur föður míns heitins, Harðar Jóhannssonar dekkjakóngs á Borgarnesi, sem var mikill áhugamður um bjórdrykkju. Hann hefði orðið 79 ára í dag þannig að það fer vel á því.“

Barinn heitir Bravó. „Bravó er kúl og gleðilegt nafn. Lógóið okkar er rauður fáni og hann er notaður á flutninga- og herskipum þegar verið er að ferma eða afferma sprengiefni. Signalfáni svokallaður. Þannig að hér verður alltaf dínamísk stemmning.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×