Viðskipti innlent

Sjö Afríkuríki vilja taka þátt í jarðhitaverkefni ÞSSÍ

Jarðhitasvæði í Eþíópíu. Myndin er á vefsíðu ÞSSÍ.
Jarðhitasvæði í Eþíópíu. Myndin er á vefsíðu ÞSSÍ.
Sjö Afríkuríki - Rúanda, Eþíópía, Tansanía, Malaví, Úganda, Búrúndi og Sambía - hafa þegar óskað eftir þátttöku í jarðhitaverkefninu sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) leiðir og hófst með formlegum hætti í ársbyrjun.

Fjallað er um málið á vefsíðu ÞSSÍ, Heimsljósi. Þar segir að verkefnið sé samfjármagnað af Norræna þróunarsjóðnum og það er hluti af víðtækara samstarfi utanríkisráðuneytis og Alþjóðabankans á sviði jarðhitanýtingar.

Davíð Bjarnason verkefnastjóri í svæðasamstarfi hjá ÞSSÍ segir að þegar í upphafi hafi orðið vart við mikinn áhuga ríkja á að koma að samstarfinu sem miðar að því að framkvæma jarðhitaleit og rannsóknir, ásamt mannauðsuppbyggingu, í mögulegum öllum þrettán löndum í sigdalnum mikla í austanverðri Afríku. Heildarfjármögnun verkefnisins er tíu milljónir evra á fimm ára tímabili, eða um það bil 1.6 milljarður íslenskra króna.

"Þessi lönd eru mislangt komin í jarðhitamálum," segir Davíð. "Kenía stendur þarna fremst, með jarðhitavirkjanir og umfangsmiklar áætlanir um frekari virkjanir, auk þess sem mikil þekking á málefnum tengd jarðhita hefur orðið til í Kenía. Eþíópía er einnig með jarðhitavirkjun, og hefur áætlanir um að auka mjög raforkuframleiðslu frá jarðhita. Önnur lönd eru skemmra á veg komin, og sum eru að taka fyrstu skrefin í að skoða hvort tækifæri felst í nýtingu þessarar auðlindar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×