Viðskipti innlent

Ætla að skrá MP banka á markað á næsta ári

Stefnt er að skráningu MP banka á hlutabréfamarkað á árinu 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu um kaup MP banka á Íslenskum verðbréfum hf. sem greint var frá í gærdag.

Í tilkynningunni segir að MP banki hafi gert tilboð í allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. og hefur tilskilinn meirihluti eigenda félagsins gengið að skilmálum tilboðsins. Kaupverð er greitt með hlutabréfum í MP banka.

Sameiginlega verða félögin í hópi þriggja stærstu fyrirtækja á Íslandi á sviði eignastýringar með um 190 milljarða eignir í stýringu. MP sérhæfir sig í að veita íslensku atvinnulífi, athafnafólki, fjárfestum og sparifjáreigendum úrvals bankaþjónustu, auk alhliða þjónustu á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar.

Íslensk verðbréf er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði eignastýringar en eignir í stýringu þess nema um 120 milljörðum.

Kaupin eru með fyrirvara um áreiðanleikakannanir og endanlegt samþykki hluthafa og eftirlitsaðila.

Rekstur Íslenskra verðbréfa hefur gengið vel. Eigið fé fyrirtækisins nam 453 milljónum króna í lok síðasta árs. Hagnaður fyrir skatta nam 217 milljónum króna.

„Ljóst er að kaupin munu styrkja þjónustugrunn félaganna og töluverðir samlegðarmöguleikar felast bæði á tekju- og kostnaðarhlið þessara tveggja fjármálafyrirtækja. Efling starfsemi MP banka á Norðurlandi og sameinað þjónustuframboð mun auka valmöguleika viðskiptavina beggja félaga,“ segir í tilkynningunni.

Hluthafar MP banka eru í dag um 50 talsins. Hluthafar í sameinuðu félagi verða á sjöunda tug talsins, þar af 5 lífeyrissjóðir.  MP banki verður sem fyrr eini banki landsins sem er að fullu leyti í eigu einkaaðila, svo sem lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Eignarhald bankans er dreift og mun enginn hluthafi fara með yfir 10% eignarhlut í bankanum í kjölfar samrunans við Íslensk verðbréf.

Hluthafar Íslenskra verðbréfa eru 11 talsins og fá þeir greitt með nýjum hlutum í MP banka. Fimm hluthafar eiga meira en 10% hlut í Íslenskum verðbréfum. Þetta eru Íslandsbanki (27,5%), Íslensk eignastýring ehf. (21,8%), Stapi lífeyrissjóður (15%), Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga (14,5%) og Lífeyrissjóður Vestfirðinga (10,3%).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×