Erlent

Hengdir í almenningsgarði öðrum til varnaðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íranar setja á svið hengingu til að mótmæla aftökuforminu. Myndin tengist fréttinni ekki.
Íranar setja á svið hengingu til að mótmæla aftökuforminu. Myndin tengist fréttinni ekki. Nordicphotos/AFP
Um 300 manns söfnuðust saman fyrir sólarupprás í almenningsgarði í Tehran í Íran á sunnudagsmorgun þegar tveir menn á þrítugsaldri voru teknir af lífi með hengingu.

Mennirnir hlutu dauðadóm fyrir að stinga mann á götu úti, ræna bakpoka hans og innihaldi að verðmæti um 2500 íslenskra króna. „Færum okkur þangað. Ég held að við fáum betra sjónarhorn," sagði áhorfandi í almenningsgarðinum við konu sína samkvæmt frétt New York Times. Hluti fólks var mættur til þess að mótmæla en aðrir til þess að verða vitni að aftökunni.

Henging er þekkt aftökuform í Íran en þó alla jafna ekki fyrir augum almennings. Flestar hengingar eiga sér stað innan veggja fangelsa en aukin glæpatíðni í landinu hefur orðið til þess að stjórnvöld í Íran telja sig þurfa að senda skýr skilaboð til glæpamanna.

Engin tölfræði er til yfir aukna glæpatíðni en stjórnvöld segja aukningu í ofbeldisglæpum. Í flestum tilfellum er um unga karlmenn að ræða sem ráðast á vegfarendur með með hníf að vopni í þeim tilgangi að ræna þá.

Mennirnir tveir, sem báðir voru atvinnulausir og tilheyrðu fátækum fjölskyldum, voru handteknir fyrir tveimur mánuðum. Árás þeirra á vegfaranda náðist á öryggismyndavél en þeir nutu liðsinnis tveggja manna til viðbótar sem stóðu vörð. Vegfarandinn lifði árásina af en þrátt fyrir það voru tvímenningarnir dæmdir til dauða og vitorðsmenn þeirra í tíu ára fangelsi auk 74 svipuhögga.

Atvikið óhugnalega þegar vegfarandinn er rændur má sjá með því að smella hér. Varað er við myndskeiðinu sem er ekki fyrir viðkvæma.

Annar þeirra sem tekinn var af lífi sagði fyrir dómi að peningarnir hefðu verið ætlaðir til þess að fjármagna skurðaðgerð fyrir móður sína.

„Við þurftum peningana vegna fátæktar. Mér þykir þetta leitt," hefur New York Times eftir írönskum fjölmiðli. Dómarinn í málinu er þekktur fyrir harða afstöðu sína gagnvart glæpum. Þeir voru dæmdir fyrir „stríð gagnvart guði" en viðurlög glæpsins er dauðarefsing.

Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu um ákvörðun stjórnvalda í Íran að standa fyrir aftökum á opinberum vettvangi. Félagsfræðingur í Íran telur aukna glæpatíðni vissulega vandamál en hún sé beintengd efnahaginum. Opinberar afökur muni ekki breyta neinu.

Frétt New York Times má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×