Mexíkóinn Sergio Perez er mættur til starfa hjá McLaren-liðinu en hann mun aka þar næstu árin eftir að hafa verið tvö ár hjá Sauber. Hann var formlega kynntur til sögunnar sem ökuþór liðsins í vikunni.
Perez segist eiga ærið verkefni fyrir höndum. "Nálgunin á þetta tímabil verður allt önnur en síðustu ár hjá Sauber," sagði hann þegar hann var inntur svara um hvernig hann ætli sér að keppa og taka á nýjum dekkjum árið 2013.
"Hjá Sauber var markmiðið að hámarka árangur okkar í keppninni og við settum minni áherslu á tímatökurnar. Hér er verðum við að keppa um ráspól og sigur í keppninni."
Í fyrra sótti Sauber-liðið grimmt í keppnunum og tóku oft fleiri viðgerðahlé en keppinautarnir. "Venjulega er besta áætlunin með fleiri stoppum en þá þarf maður auðvitað að gefa í allan tíman. Nú þarf ég að breyta nálguninni minni."
Næstu vikur munu fara í að kynnast nýju umhverfi en Perez hafði þó komið til Woking fyrir jól, prófað keppnisherminn og látið mæla sig svo sætið í bílnum mundi passa. "Þegar ég kem til Melbourne vil ég vera mjög vel undirbúinn svo allt gangi upp án þess að ég þurfi að hugsa um nokkuð annað en aksturinn."
