Handbolti

HM 2013: Naumur sigur hjá Makedóníu gegn Síle

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Naumche Mojsovski skorar hér gegn Síle í Sevilla í dag.
Naumche Mojsovski skorar hér gegn Síle í Sevilla í dag. Mynd/Vilhelm
Makedónía og Síle opnuðu riðlakeppnina á heimsmeistaramótinu í handknattleik í dag þar sem að Makedónía hafði betur 30-28 í hörkuleik. Íslendingar mæta Síle á morgun, sunnudag, en Rússar eru mótherjar Íslands í fyrsta leiknum sem hefst kl. 17 að íslenskum tíma.

Bæði lið gerðu sig seka um aragrúa af mistökum í fyrri hálfleik. Síle komst mest þremur mörkum yfir og framliggjandi vörn þeirra virtist koma Makedóníuliðinu á óvart. Staðan var 12-10 fyrir Makedóníu í hálfleik.

Markvörður Síle, Rene Oliva, er stór og stæðilegur og hann sýndi lipra takta – og var besti leikmaður Síle í leiknum.

Makedónía herti tökin á leiknum í upphafi síðari hálfleiks og náði liðið 6 marka forskoti, 18-12 þegar 8 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Breiddin í leikmannahóp Síle virðist ekki vera mikil og sömu leikmennirnir voru nánast alltaf inni á vellinum.

Þrátt fyrir það náði Síle að minnka muninn í 1 mark, 21-20, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Og það munaði aðeins tveimur mörkum, 29-27, þegar tvær mínútur voru eftir. Síle lék vörnina nánast maður á mann síðustu mínútur leiksins. Það gekk ágætlega og liðið skoraði úr hraðaupphlaupi, 29-28, þegar ein mínúta var eftir af leiknum.

Naumche Mojsovski kom Makedóníu í 30-28 þegar 50 sekúndur voru eftir. Það reyndist vera síðasta mark leiksins - og Makedóníumenn lönduðu stigunum tveimur sem í boði voru í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×