Innlent

Landlæknir veitir faglega eftirlitið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Laura Scheving Thorsteinsson segir gæði og öryggi fara alltaf saman, með auknum gæðum eykst öryggið. Fréttablaðið/Vilhelm
Laura Scheving Thorsteinsson segir gæði og öryggi fara alltaf saman, með auknum gæðum eykst öryggið. Fréttablaðið/Vilhelm Mynd/Vilhelm
Embætti Landlæknis fer með eftirlitshlutverk í heilbrigðisþjónustu og sinnir kvörtunum almennings vegna þjónustunnar.



Embættið veitir tilmæli, áminningu og í alvarlegustu tilvikum sviptir fagfólk starfsleyfi. Þegar um óvænt dauðsföll er að ræða, þar sem dauði eða örkumlun sjúklings verður vegna mistaka, þá fer málið til lögreglu.



Þá eru viðurlögin í höndum dómskerfisins. Í grein Fréttablaðsins í gær sögðu stjórnendur Landspítalans að dómsmál vegna mistaka heilbrigðisstarfsmanna í starfi geti verið hættuleg þróun fyrir öryggismál sjúklinga.



Tilkynningar starfsfólks vegna mistaka er nefnilega ein meginforsenda þess að hægt sé að bæta verklag, koma í veg fyrir fleiri mistök og þróa þannig svokallaða öryggismenningu á vinnustaðnum þar sem gæði og öryggi er haft að leiðarljósi.

 

Eftirlit og gæði hjá Landlækni



Laura Scheving Thorsteinsson er verkefnastjóri á sviði eftirlits og gæða hjá Landlækni. Hún segir atvik vera mjög algeng í heilbrigðisþjónustu þótt alvarleg atvik séu fátíð. Mikilvægast sé þó að bregðast við þeim öllum á réttan hátt.



„Á stórri stofnun geta atvik gerst á hverjum degi en þau valda ekki öll skaða. Flækjustig heilbrigðisþjónustu hefur aukist mikið enda hefur legutími styst verulega. Það þýðir að sjúklingar liggja bara inni þegar þeir eru mjög veikir, þurfa mikið eftirlit og mikla þjónustu. Fyrr á tímum lá fólk inni þar til það varð frískt. Þannig að í dag eru í raun alltaf erfið tilfelli inni á spítölum og almennu deildirnar eru farnar að líkjast gjörgæsludeildum fyrir tuttugu árum og á niðurskurðartímum getur þannig ástand orðið ansi erfitt fyrir starfsmenn.“

 

Algengustu orsakir atvika er vegna skipulagsgalla



Laura segir helstu ástæður fyrir að atvik verði í heilbrigðisþjónustu vera vegna ágalla í skipulagi, kerfislægra atvika, manneklu, fólk þekki ekki verklagsreglur eða þær ekki fyrir hendi, hafi ekki fengið næga þjálfun eða misskilnings í samskiptum. Hlutverk Landlæknis er meðal annars að setja fram leiðbeiningar um bætta verkferla.



„Það sem mestu máli skiptir er menning á vinnustað. Þar sem er þróuð öryggismenning þar er meira öryggi. Það eru fjórir þættir sem efla öryggismenningu; áhugi stjórnenda á öryggismálum, góð samskipti og samstarf starfsfólks og skráning atvika. Útgangspunkturinn er ekki að leita að sökudólgum heldur að leita lausna og skoða hvernig við getum gert betur. “

 

 

Skráning atvika hefur aukist



Þegar Fréttablaðið bað um tölfræðiupplýsingar um atvik í heilbrigðiskerfinu hjá Landlækni kom í ljós að slíkt er ekki fyrir hendi.

 

„Viö köllum inn skráningu á atvikum tvisvar á ári en nú er komin samtímaskráning. Þannig að við höfum skráð atvik hjá okkur en við vitum að það er vanskráning og því ekki um heildar tölfræði að ræða. Aftur á móti hefur skráning aukist mikið á síðustu árum. Heilbrigðisstarfsfólk hefur meiri áhuga á skráningu og sér gildi hennar. Einnig er verið er að vinna að rannsókn um óvæntan skaða. Við erum búin með fyrsta hlutann af þremur og niðurstöður eru mjög áþekkar því sem komið hefur í ljós úr sambærilegum rannsóknum í öðrum löndum,“ segir Laura.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×