Innlent

Ók yfir á rauðu ljósi og kastaði rusli

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
„Ekki eru allir sem taka afskiptum lögreglu vel, eða skilja við hana sáttir. Þannig var því t.d. farið með ungan pilt, sem lögreglan stöðvaði í umferðinni í síðustu viku,“ segir á Facebook síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Pilturinn var stöðvaður í Reykjavík fyrir að aka gegn rauðu ljósi og var vettvangsskýrsla fyllt út í lögreglubílnum að honum viðstöddum.

Hann fékk svo afrit af skýrslunni og hugðist halda sína leið. „Afskiptum lögreglu var hins vegar ekki lokið því um leið og pilturinn fór út úr lögreglubílnum henti hann afritinu í götuna eins og hverju öðru rusli.“

Pilturinn var því kallaður aftur í lögreglubílinn þar sem hann hafði gerst brotlegur gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur með háttsemi sinni.

Hann á því yfir höfði sér sekt fyrir að aka gegn rauðu ljósi og einnig fyrir að fleygja rusli á almannafæri.

„Sem betur fer heyra mál sem þessi til undantekninga enda eru samskipti lögreglu og borgaranna í langflestum tilvikum á mjög góðum nótum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×