Viðskipti innlent

Frystihús tekur til starfa í Búðardal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fiskvinnsla, sem treystir ekki á höfn heldur á trukkaumferð, er hafin í Búðardal. Þetta eina sveitaþorp Dalasýslu hefur áður reynt að gerast sjávarþorp, - snemma á áttunda áratug síðustu aldar, þegar skelfiskvinnsla var stunduð þar um tíma. Á árunum upp úr 1970 stóð Kaupfélag Hvammsfjarðar fyrir vinnslu hörpudisks í sláturhúsinu um nokkurra ára skeið, sem veitti 10-20 manns atvinnu. Skelin var keypt af báti sem landaði í Stykkishólmi og flutt til Búðardals á vörubíl.

Það er fyrst nú, fjörutíu árum síðar, sem sjávarafli er á ný farinn að skapa umtalsverða atvinnu í Búðardal. Þeir Baldur Gíslason og Breki Bjarnason hafa lengi verið í smábátaútgerð með feðrum sínum og saman hófu fjórmenningarnir rekstur fyrirtækisins Sæfrost í byrjun ársins, einkum til að nýta frystiklefa gamla sláturhússins.

Gamla sláturhúsið í Búðardal hýsir nú fiskvinnslu.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson, Stöð 2.
Í frétt Stöðvar 2 í kvöld kom fram að þeir frysta einkum lax frá fiskeldisfyrirtækinu Fjarðalaxi á Vestfjörðum, einnig frysta þeir grásleppu og makríl og stefna á síldarfrystingu. Unnið er í törnum og voru þeir með allt að sextán manns í vinnu við makrílfrystingu í sumar. 

Tilraun til endurvekja kjötvinnslu í húsinu mistókst fyrir átta árum en félagarnir segja að grundvöllur fiskvinnslu í Búðardal sé ekki höfnin heldur trukkaumferðin. Þegar fólk undrist að þeir reyni fiskvinnslu þar benda þeir á að miklir fiskflutningar fara í gegnum Dalina í hverri viku. 

Nánar má heyra um starfsemina í meðfylgjandi frétt Stöðvar 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×