Innlent

Yfirgnæfandi meirihluti ofbeldismanna Íslendingar

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Meira en helmingur þeirra kvenna sem dvaldi í Kvennaathvarfinu á síðasta ári voru erlendir ríkisborgarar. Ofbeldismennirnir eru í yfirgnæfandi meirihluta íslenskir. Þetta kemur fram í skýrslu Fjölmenningarseturs um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi.

Fjórðungur þeirra sem kom í viðtal í Kvennaathvarfið voru erlendir ríkisborgarar. Aftur á móti eru erlendu konurnar mun líklegri til að koma beint í dvöl en viðtal, og því var meira en helmingur dvalargesta í Kvennaathvarfinu af erlendum uppruna, eða um 55%.

„Erlendar konur sem slíta ofbeldissambandi hafa síður í önnur hús að vernda en íslenskar konur. Þær þurfa í ýmsum tilfellum að hafa áhyggjur af dvalarleyfinu sínu, þær eiga oft erfiðara með að fá atvinnu og íbúðir til leigu. Það er margt sem flækir málin, auk þess sem að þeirra félagslega net og fjölskylda er oft ekki á landinu," segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, forstöðukona Kvennaathvarfsins.

Í skýrslunni kemur fram að alls hafi 325 konur leitað til Kvennaathvarfsins á síðasta ári.  Konurnar voru með ríkisfang í 37 löndum.  Sigþrúður segir erlendar konur mun líklegri til að fara aftur í ofbeldissambönd, þar sem þær hafi í mörgum tilfellum hagsmuna að gæta um dvalarleyfi og fleira.

Þegar sjónum er beint aðofbeldismönnunum má sjá að meirihluti þeirra er íslenskur, eða 80% gerenda, þótt mengi þeirra taki til 26 landa. Sigþrúður segir að þessi punktur gleymist ansi oft.

„Afþví að svo stór hluti kvennanna eru erlendar er stundum horft á vandamálið sem erlent eða innflutt. Það er það er svo sannarlega ekki. Ofbeldismennirnir eru Íslendingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×