Skoðun

Iðjuþjálfun og skólaumhverfi

Anna Alexandersdóttir og Guðrún J. Benediktsdóttir og Rósa Gunnsteinsdóttir skrifa
Greinarhöfundar eru iðjuþjálfar sem unnið hafa með börnum og varð kveikjan að þessari grein almenn umræða um andlega líðan barna og unglinga í skólum á Íslandi í dag og hversu sláandi tölur eru um brottfall nemenda úr framhaldsskóla og skólaafneitun ungra barna.

Á Íslandi eru 167 grunnskólar og starfa iðjuþjálfar aðeins við 10 þeirra. Starf iðjuþjálfa innan skólakerfis hefur í gegnum tíðina að mestu einkennst af þjónustu við börn með hreyfihömlun og hreyfiþroskaröskun. Undanfarin misseri hefur áherslan þó breyst og nýtist þekking iðjuþjálfa einnig nemendum sem glíma við ýmsa örðugleika sem hafa áhrif á þátttöku í skólastarfi.

Aðkoma iðjuþjálfa tengist meðal annars málum barna sem glíma við hegðunarvanda, lyndisraskanir, athyglisbrest með/án ofvirkni, greiningu á einhverfurófi auk þess að vinna með nemendum með brotna sjálfsmynd og/eða slaka félagsfærni. Eins og staðan er í dag þurfa nemendur sem þurfa á þjónustu iðjuþjálfa að halda yfirleitt að leita til sérhæfðra stofnana þar sem iðjuþjálfar starfa að jafnaði ekki innan veggja skóla, að undanskildu Norðurlandinu.

Viðfangsefni nemenda í skólanum eru fjölbreytt og snúa að náms- og félagslegum þáttum og því er nálgun við nemendur og skóla fjölþætt og margbreytileg. Aðkoma iðjuþjálfa getur m.a. verið bein þjálfun með nemanda, fyrirlagning matstækja eða ráðgjöf til foreldra og starfsfólks.

Áhersla er á þátttöku í skólastarfi, að ýta undir styrkleika og fjarlægja hindranir sem torvelda nemendum námið, að finna aðferðir sem auðvelda þeim að tileinka sér nýjar leiðir til náms, leiks og félagslegra samskipta. Einnig ber að taka mið af því sem fram fer utan veggja skólastofunnar s.s. í frímínútum og öðrum hléum en þar reynir oft verulega á félagsleg samskipti.

Til þess að þjálfun og yfirfærsla hennar verði markvissari og nýtist betur er brýnt að iðjuþjálfar starfi í skólum. Þjálfunin fer þá fram í raunverulegum aðstæðum og verður þannig partur af skóladegi barnsins.

Ávinningur verður margþættur og snýr jafnt að börnum, fjölskyldu og samfélagi í heild. Undirritaðar vilja sjá iðjuþjálfa starfa í fleiri skólum og hvetja skólastjórnendur til að kynna sér það starf sem iðjuþjálfar vinna nú þegar innan veggja skóla.

Anna Alexandersdóttir, Austurbrú

Guðrún J. Benediktsdóttir, Æfingastöðinni

Rósa Gunnsteinsdóttir, BUGL


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.