Sport

Ólympíuleikarnir árið 2020 verða í Tókýó í Japan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Alþjóðaólympíunefndin hefur ákveðið að 32. sumarleikarnir sem haldnir verða árið 2020 muni fara fram í Tókýó í Japan. Tókýó hafði betur í annarri umferð á móti Istanbul frá Tyrklandi en Madrid á Spáni hafði áður dottið úr leik í fyrstu umferð. Kosningin fór fram á á 125. þingi Ólympíunefndarinnar sem haldið er í Buenos Aires í Argentínu.

Þetta verður í annað skipti sem Tókýó heldur Sumarólympíuleikana en 18. Ólympíuleikarnir sem fram fóru árið 1964 voru einmitt haldnir í stærstu borg Japans.

Í tvö ár hafa framboðið reynt að sannfæra meðlimi Alþjóðaólympíunefndarinnar um að leikarnir eigi að vera hjá þeim. Tókýó eyddi um sex milljörðum dollara í sitt framboð eða um 732 milljörðum íslenskra króna.  

96 meðlimir höfðu atkvæðarétt í kjörinu og Tókýó vann yfirburðarsigur í báðum umferðum. Tókýó fékk 42 atkvæði á móti 26 atkvæðum hjá Istanbul og Madrid í fyrstu umferðinni og í úrslitaumferðinni fékk Tókýó 60 atkvæði á móti 36 atkvæðum sem fóru til Istanbul.

Istanbul eyddi þrefalt meira í sitt framboð en borgin átti möguleika á því að verða fyrsta múslímska borgin til að halda Ólympíuleika. Þetta er í fimmta sinn sem Istanbul reynir að fá leikana en Tyrkir reyndu líka að fá leikana 2000 (Sydney), 2004 (Aþena), 2008 (Peking) og 2012 (London) en slepptu því að reyna við leikana 2016 sem mun fara fram í Ríó de Janeiro í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×