Skoðun

Dótakassi ráðherra?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Sigurður Ingi Jóhannsson var varla sestur í ríkisstjórn þegar hann hóf að tjá sig fjálglega um hugmyndir sínar um nýtingu náttúruauðlinda.

Hann virðist helst líta á lyklavöldin í umhverfisráðuneytinu sem tækifæri til að hrifsa til sín náttúruverðmæti til að þjóna duttlungum sínum. Ráðherra leyfir sér að tala um rammaáætlun eins og hún sé einhvers konar leikfang sem megi nota að vild.

Svo er ekki.

Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða á sér 20 ára aðdraganda. Hún skiptist í fyrsta áfanga, 1993-2003, og annan áfanga, 2007-2013. Í öðrum áfanga var hætt að líta aðeins til nýtingarsjónarmiða og áætlunin gerð að verndar- og orkunýtingaráætlun og ákveðið að áætlunin skyldi fá lögformlega stöðu. Allt var þetta í anda stefnu Samfylkingarinnar um Fagra Ísland. Með samþykkt rammaáætlunar í janúar 2013 vannst mikilvægur áfangasigur fyrir náttúru Íslands og landsmenn alla.

Hann átti sér langan aðdraganda og byggðist á vandaðri vinnu sérfræðinga, ráðherra og Alþingis. Rammaáætlun er samþykkt á grundvelli laga nr. 48 frá 2011 sem Sigurður Ingi Jóhannsson greiddi atkvæði með. Í lögunum segir að þingsályktun um rammaáætlun skuli lögð fyrir Alþingi að undangenginni kynningu þar sem stofnunum, hagsmunaaðilum og félagasamtökum gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

Niðurstaðan úr þeirri kynningu varð sú að flokkun rammaáætlunar tók ákveðnum breytingum byggðum á málefnalegum rökum en þó aðeins þannig að svæði voru færð í biðflokk til frekari rannsókna. Ráðherrar og Alþingi brugðu ekki út af tillögum úr rammastarfinu með því að færa nýtingarkosti í verndarflokk eða öfugt.

Niðurstöðurnar standa því óbreyttar en nokkur svæði eru látin njóta vafans og verða könnuð nánar. Ný verkefnisstjórn hefur verið skipuð í samræmi við lögin og vinnur meðal annars með þá virkjunarkosti sem eru í biðflokki. Hún á að skila niðurstöðum um þau svæði sem flutt voru í biðflokk eigi síðar en 1. mars 2014. Af hverju vill nýr ráðherra ekki bíða í níu mánuði og fá faglegt mat á þessum landsvæðum?




Skoðun

Sjá meira


×