Sport

Kári Steinn sjö sekúndum frá Íslandsmetinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Steinn Karlsson sigraði í 10 km götuhlaupi í Akureyrarhlaupinu í gær og er því Íslandsmeistari í greininni. Hann náði þó ekki að bæta Íslandsmetið í greininni.

Kári Steinn hljóp á 30 mínútum og átján sekúndum og var aðeins sjö sekúndum frá 29 ára gömlu Íslandsmeti Jóns Diðrikssonar.

Arndís Ýr Hafþórsdóttir varð Íslandsmeistari í kvennaflokki eftir að hafa komið í mark á 36 mínútum og 55 sekúndum, sem er þriðji besti tími í greininni frá upphafi hér á landi.

Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Kára Steins, sagði við Morgunblaðið að Kári væri nýstiginn upp úr veikindum og því hefði ekki verið raunhæft fyrir hann að bæta Íslandsmetið. Hlaupið hafi hins vegar verið góð æfing fyrir hann og að veikindin myndu ekki trufla undirbúning Kára Steins fyrir Ólympíuleikana, þar sem hann mun hlaupa í maraþoni.

Alls tóku 200 manns í hlaupinu en hér má sjá tíma allra þátttakenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×