Skoðun

Lífsbjörg og framtíðarvon í Gambíu

Nú sjá 42.859 einstaklingar í Gambíu fram á að eiga mat langt fram á næsta ár, þökk sé aðstoð frá almenningi í köldu landi í norðri.

Það rigndi stopult á Sahel-svæðinu í vesturhluta Afríku í fyrra. Uppskeran brást. Neyðaraðstoð var veitt en mikið vantar upp á að náðst hafi til allra.

Í Gambíu – minnsta landi Afríku – tók Rauði krossinn á Íslandi að sér að veita neyðaraðstoð og hjálpa fólki að ná sér á strik eftir áfallið. Nú, sex mánuðum síðar, hafa 42.859 einstaklingar fengið hrísgrjónauppskeru sem þeir hefðu annars ekki fengið.

Margir voru orðnir uppiskroppa með mat þegar í sumar. Rauða krossinum tókst að hjálpa sumum þeirra sem voru verst staddir. Þeir, og fleiri til, fengu svo hrísgrjónaútsæði til að tryggja uppskeru fyrir næsta ár.

Birna Halldórsdóttir, sendifulltrúi Rauða krossins, leiðir nú framhald hjálparstarfsins, sem felst meðal annars í því að hjálpa fátækum konum við að koma sér upp matjurtagörðum. Í þeim geta þær ræktað grænmeti sem er bæði hægt að borða með hrísgrjónunum, til að auka næringargildi máltíðarinnar, og selja til að afla tekna fyrir heimilið.

Meðfram matjurtagörðunum er komið upp lágum veggjum til að geitur flækist ekki í garðana og éti þar allt góðgætið og brunnar eru grafnir til að tryggja reglulega áveitu. Þá læra konurnar nýjar aðferðir við að yrkja garðinn og geyma matinn, þannig að útbreiðsla þekkingar er líka hluti af verkefnunum.

Nærvera Birnu í Gambíu gerði Rauða krossinum sömuleiðis kleift að koma framlagi tombólukrakka í góð not. Um 500 krakkar söfnuðu samtals 600 þúsund krónum sem verða notaðar til að kaupa námsvörur og skólabúninga fyrir börn, sem annars kæmust ekki í skóla. Birna telur ekki eftir sér að vinna þetta starf yfir jólin.

Hjálparstarf Íslendinga er ekki fyrirferðarmikið á alþjóðavísu. En fátækt fólk í Gambíu sem Íslendingar hjálpuðu til að lifa af mesta matarskortinn í sumar og haust – og aðstoða þessa dagana við að ná sér á strik á ný – hugsa án efa hlýlega til landsins í norðri yfir hátíðirnar.




Skoðun

Sjá meira


×