Handbolti

Sluppu við "Mission Impossible“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir Á æfingu með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu.Fréttablaðið/Stefán
Hrafnhildur Skúladóttir Á æfingu með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu.Fréttablaðið/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið hafði heppnina með sér þegar dregið var í umspilið um laus sæti á Heimsmeistaramótinu í Serbíu sem fer fram í desember á næsta ári. Íslenska liðið lenti á móti Tékklandi, sem er eina liðið sem náði ekki að hala inn stig í milliriðlunum á EM í Serbíu.

„Ég er svo kát og glöð því þetta gat ekki farið betur. Við byrjum heima og það er rosalega mikilvægt að ná góðum úrslitum í heimaleiknum," sagði Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska liðsins, en leikirnir fara fram í byrjun júnímánaðar. Tékkar urðu í 12. sæti á EM í Serbíu en íslenska landsliðið lenti þar í 15. og næstsíðasta sæti.

„Þetta tékkneska lið er búið að vera á rosalegri siglingu og þær eru búnar að spila alveg frábærlega á EM. Þær stóðu meðal annars í Noregi allan leikinn og hafa sýnt að þær eru búnar að taka gríðarlegum framförum. Þær voru samt klárlega lakasta liðið í efri styrkleikaflokknum," sagði Hrafnhildur. Íslenska liðið hefði nefnilega getað mætt Danmörku, Rússlandi, Spáni, Rúmeníu, Frakklandi, Þýskalandi eða Svíþjóð í þessum umspilsleikjum.

„Við hefðum nánast getað verið að fara í „Mission Impossible" þannig séð því við hefðum getað lent á móti alveg skelfilegum þjóðum. Auðvitað getum við slysast til að vinna einn og einn leik á móti þessum stóru þjóðum en þegar komið er í tvo leiki í umspili er orðið ansi erfitt að slá þessar allra sterkustu þjóðir út," sagði Hrafnhildur.

Íslenska liðið er búið að komast inn á stórmót undanfarin þrjú ár og á nú góða möguleika á að ná stórmóti fjórða desembermánuðinn í röð.

„Við skuldum það að gera betur en í Serbíu, það er klárt," sagði Hrafnhildur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×