Handbolti

Búin að fara í mikinn rússíbana með liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Obba þarf að sinna ansi mörgu í landsliðsferðum og meðal annars sér hún um búningana.fréttablaðið/stefán
Obba þarf að sinna ansi mörgu í landsliðsferðum og meðal annars sér hún um búningana.fréttablaðið/stefán
Það þekkja allir Obbu sem hafa komið nálægt kvennalandsliðinu í handbolta. Liðsstjóri íslensku stelpnanna hefur í nógu að snúast á Evrópumeistaramótinu í Serbíu, þar á meðal að hjálpa stelpunum að komast í gegnum erfiðar stundir.

„Ég fór fyrst í ferð til Ítalíu þegar Stefán Arnarsson var með liðið. Þá fór ég sem fararstjóri en ég er búin að vera liðstjóri þeirra síðan 2006, þegar Júlíus Jónasson tók við liðinu. Ég held að ég hafi ekki misst úr ferð síðan þá," segir Þorbjörg Jóhanna Gunnarsdóttir, betur þekkt sem Obba innan íslenska hópsins. Hún sér um skipulagningu ferða íslenska liðsins ásamt framkvæmdastjóranum Einari Þorvarðarsyni og heldur síðan utan um liðið í keppnisferðunum.

„Ég hef ekki talið það saman hvað þetta eru orðnar margar ferðir en það eru nokkrar á hverju ári. Maður er með fjölskyldu og þrjú börn og þetta er auðvitað binding. Þetta gefur samt mikið og er skemmtilegt því annars væri maður ekki í þessu. Maður er búinn að fara í mikinn rússíbana með þessum stelpum," segir Þorbjörg brosandi.

Íslenska liðið hefur stigið stór skref á þeim tíma sem hún hefur verið í kringum liðið, en þegar hún byrjaði hafði kvennalandsliðið aldrei komist á stórmót.

„Það var alltaf markmiðið og við vorum stundum nálægt því að komast inn. Það hafðist ekki alveg en svo gerðist það þegar riðlakeppnin kom. Gústi er búinn að gera flotta hluti en það má ekki gleyma því sem Júlli gerði. Hann yngdi liðið verulega upp og það komu miklar breytingar með honum sem er síðan búið að byggja á. Svo kom Gústi á eftir honum og þetta er allt saman að smella.

Þetta er þriðja stórmótið og vonandi komumst við á það fjórða á næsta ári. Af því að við erum hér förum við í umspilsleiki í vor og verðum vonandi heppin með andstæðinga. Þá er það HM í Serbíu í desember á næsta ári," segir Þorbjörg. Margir leikmenn liðsins komu inn sem nýliðar í hennar tíð sem liðsstjóri.

„Þessar stelpur eru flestar búnar að vera samferða mér. Það er alltaf ein og ein ný sem kemur inn en sami kjarni er búinn að vera allan tímann. Mér finnst þær allar frábærar og ég upplifi það bara þannig að það sé gott samstarf á milli okkar allra. Ég þekki þær orðið nokkuð vel og veit, að ég held, hvað hver þeirra þarf. Ég er í alls konar hlutverkum hjá liðinu og tek allan pakkann," segir Þorbjörg.

Þorbjörg segir það nauðsynlegt fyrir liðið að það sé kona með í för. Allt þjálfarateymið er karlmenn og því kemur liðsstjórinn sterk inn á viðkvæmum stundum.

„Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að það sé kona með liðinu og við erum líka heppin að vera með frábæran sjúkraþjálfara í Elínu (Harðardóttur). Gígja (Kristinsdóttir) er líka með okkur núna, en hún hefur verið með liðinu á stórmótunum. Það er alltaf eitthvað sem þú vilt kannski ekki ræða við einhvern karlmann," segir Þorbjörg en mun ekki koma að því að kona þjálfi íslenska liðið?

„Það kemur örugglega kvenþjálfari einhvern tímann. Kannski ekki alveg í dag eða á morgun en það hlýtur að styttast í það eins og allt. Ég veit ekki hvort einhver af þessum stelpum fer út í þjálfun því ég sé það ekki alveg fyrir mér en maður á aldrei að segja aldrei," segir Þorbjörg.

EM í Serbíu byrjaði á stórum skelli á móti Svartfjallalandi og þá reynir svo sannarlega á liðsstjórann efir leik.

„Það var erfitt og þá þarf maður að vera dálítið vakandi og geta lesið það hvort maður eigi að fara að gera eitthvað núna eða láta þetta eiga sig. Maður þarf að vera svolítið „dipló" en jafnframt að láta þær vita að maður sé til staðar. Þær vita það og maður spjallaði við nokkrar í gær (fyrrakvöld). Það er mikill metnaður í liðinu og þær voru miður sín eftir frammistöðuna í gær. Við vitum það alveg að þær geta miklu betur en þetta," sagði Þorbjörg.

En verður Obba áfram í kringum íslenska liðið? „Já, örugglega. Á meðan þær vilja hafa mig í kringum sig er ég alveg tilbúin að hjálpa þeim. Þetta er skemmtilegt og gefur mikið. Þetta eru skemmtilegar stelpur og flottur hópur. Það er gaman að vera í kringum þær," sagði Þorbjörg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×