Handbolti

Guðmundur: Alexander er sigurvegari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander hefur farið á kostum í fyrstu leikjum vetrarins.
Alexander hefur farið á kostum í fyrstu leikjum vetrarins.
Landsliðsmaðurinn Alexander Petersson hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá Rhein-Neckar Löwen í vetur. Hann á stóran þátt í frábæru gengi liðsins á þessari leiktíð. Hann er í sjötta sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar og ef við drögum mark af vítalínunni frá er Alexander markahæstur ásamt Filip Jicha og Hans Lindberg.

Þess utan stelur Alexander fjölda bolta í hverjum leik og stendur vörnina eins og höfðingi.

„Hann er búinn að vera frábær frá byrjun. Hann smellur vel inn í leikstíl liðsins á báðum endum vallarins. Varnarleikurinn okkar er svipaður og hjá íslenska landsliðinu og svo þekkir hann leikaðferðirnar í sókninni líka vel. Svo er hann frábær karakter og sigurvegari," sagði Guðmundur um lærisvein sinn sem skorar 5,3 mörk að meðaltali í leik í vetur.

„Hann smitar líka út frá sér með baráttuanda sínum og vilja. Hann hefur mjög góð áhrif á allan hópinn. Hann er líka farinn að gefa meira af stoðsendingum en áður."

Frammistaða Alexanders í vetur hefur verið slík að menn eru farnir að tala um hann sem besta leikmann deildarinnar. Það er líklega enginn annar leikmaður sem skilar álíka framlagi og hann á vellinum.

„Það er erfitt að meta það alltaf. Hann er samt einn af þeim betri. Það eru margir frábærir hjá Kiel og Íslendingarnir þar í flokki. Hér er rjóminn af bestu leikmönnunum og Alexander er einn af þeim betri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×