Handbolti

Aron: Ekki auðvelt að fylla skarð Arnórs

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór hafði verið að spila mjög vel í vetur og mikið áfall fyrir hann
nordicphotos/ bongarts
Arnór hafði verið að spila mjög vel í vetur og mikið áfall fyrir hann nordicphotos/ bongarts
Íslenska landsliðið og þýska liðið Flensburg varð fyrir miklu áfalli í gær þegar Arnór Atlason meiddist illa í leik með Flensburg gegn Hamburg í Meistaradeild Evrópu.

Arnór sleit þá hásin í fyrri hálfleik.

Hann stökk upp í hraðaupphlaupi og meiddist er hann lenti. Gríðarlegt áfall fyrir leikmanninn sem hefur verið í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu undanfarin ár.

Arnór verður væntanlega frá í sex til átta mánuði og spilar því ekki meir á þessari leiktíð.

„Þetta er áfall fyrir okkur í landsliðinu. Arnór hefur verið að spila vel með Flensburg í vetur og það er mikill missir af manni eins og Arnóri. Við eigum eftir að sakna hans á HM í janúar," sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari.

„Það er sjónarsviptir af Arnóri og það verður ekki auðvelt að fylla hans skarð. Nú þurfa aðrir menn að stíga upp og leysa þessa stöð," sagði Aron sem missti af því er Arnór meiddist.

„Ég kom seint inn í leikinn og sá að Arnór var ekki með. Óttaðist strax að hann væri meiddur og fékk það svo staðfest. Þá bölvaði ég. Þetta var smá gusa í andlitið og ég finn til með Arnóri sem hefur verið að spila frábærlega fyrir Flensburg í vetur. Vonandi kemur hann fljótt til baka og sterkari sem fyrr."

Arnór hefur væntanlega leikið sinn síðasta leik fyrir Flensburg því hann gengur í raðir franska félagsins St. Raphael næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×