Innlent

Þurfa að lágmarki 28 metra á sekúndu

Allt eðlilegt fólk heldur sig innandyra í uppáhaldsveðri fremstu seglbrettakappa heims sem stefna nú mögulega til Íslands.
Allt eðlilegt fólk heldur sig innandyra í uppáhaldsveðri fremstu seglbrettakappa heims sem stefna nú mögulega til Íslands.
„Það þarf einfaldlega kolvitlaust veður,“ segir Hrafnkell Sigtryggsson, sem annast mál Red Bull Storm Chase-seglbrettakeppninnar hér á Íslandi.

Áætlað er að tíu af fremstu seglbrettaköppum heims taki þátt í umræddri keppni í haust. „Það er fylgst með sjö stöðum í heiminum. Ef spár benda til þess að það verði snarvitlaust veður einhvers staðar þá er liðinu hóað út þangað,“ útskýrir Hrafnkell. Um er að ræða tíu keppendur, dómara, björgunarfólk og kvikmyndatökulið.

Aðrir staðir sem til greina koma eru Hatteras-höfði í Bandaríkjunum, norðvesturströnd Írlands, Costa de la Muerta (Strönd dauðans) á Spáni, Bretagne-skagi á Frakklandi, Omaezaki í Japan og Tasmanía sem þykir líklegust í augnablikinu.

„Aðstæðurnar sem verið er að leita að eru 28 metrar á sekúndu eða meira,“ segir Hrafnkell sem kveður reyndar dálítið tæpt að Ísland verið fyrir valinu þetta haustið. „Það er helst ef það koma leifar af fellibyl sem það verður nógu hvasst.“

Keppendurnir eru að sögn Hrafnkels flestir þátttakendur í heimsbikarnum í íþróttinni sem Hrafnkell líkir við snjóbrettakeppni. Menn fái stig eftir því hversu hátt er stokkið, eftir því hversu vel stökkin eru útfærð og því hversu stórum öldum menn nái að fleyta sér áfram á.

Að sögn Hrafnkels hreifst breskur maður sem var hér á ferð í apríl í fyrra af aðstæðum hér og spurðist fyrir um þær meðal íslenskra seglbrettamanna. Það hafi leitt til þess að gamall seglbrettakappi, sem er nú aðaldómari í bæði heimsbikarnum og Storm Chase-keppninni, hafi fengið augastað á landinu. Hrafnkell aflaði því upplýsinga fyrir þá um ýmsa staði frá suðvesturhorni landsins austur að Vík í Mýrdal.

„Landeyjahöfn er mjög spennandi. Sandrifið fyrir utan höfnina er ansi líklegt til þess að búa til stórar öldur,“ segir Hrafnkell, sem kveður svæðið í kringum Vestmannaeyjar og Landeyjahöfn ákjósanlegt. „Það er ekkert sem truflar vindinn og þægileg sandströnd þar sem auðvelt er að fara út með sæþotur sem eru hluti af öryggisviðbúnaðinum. Og ekki spilla fyrir stikkorð eins og eldgos og Eyjafjallajökull.“

Á heimasíðu Storm Chase-keppninnar má lesa að Ísland hafi marga kosti. Ókosturinn sé myrkur þegar komið sé fram í miðjan október og kuldi þegar nóvember er genginn í garð. „En þeim finnst þetta spennandi. Ef það kemur stór lægð geta stórir hlutir gerst. Þetta er séns,“ segir Hrafnkell Sigtryggsson vongóður.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×