Skoðun

Hver bað um þetta?

Sigurður Garðarsson skrifar
Það var heldur óskemmtilegt fyrir okkur sem starfað höfum um árabil við Ingólfstorg að skoða svonefnda verðlaunatillögu að breyttu skipulagi torgsins og nágrenni þess og sjá að búið er að þurrka okkur hreinlega út!

Fjölda starfsfólks, eigenda og fjölskyldna er eðlilega brugðið, fólks sem byggir afkomu sína á þeim veitingarekstri sem starfræktur er við norðanvert torgið.

Og spurt er: Hver bað um þetta? Hverjum er eiginlega verið að þjóna með þessu brölti öllu? Alltént ekki þeim sem búa eða starfa við Ingólfstorg. Svo mikið er víst.

Þeim er einnig spurn, sem lagt hafa leið sína að Ingólfstorgi í sumar. Sjaldan – ef nokkru sinni – hefur mannlíf staðið þar í jafn miklum blóma og eftir að rekstraraðilar tóku sig saman um að fóstra torgið, koma þar á fót „Ylströnd Ingólfs" með tilheyrandi sólbekkjum, grasbala, litríkum húsgögnum og viðburðahaldi.

Risaskjá hefur einnig verið komið fyrir við torgið þar sem fjöldi hefur safnast saman og notið afþreyingar dag eftir dag, viku eftir viku. Verslun og veitingarekstur hefur og verið með albesta móti.

Fjölmiðlar hafa verið duglegir við að birta myndir af iðandi mannlífinu á þessu margumrædda torgi sem einnig var miðpunktur jólahalds og hátíðarviðburða um síðustu jól. Mannlífið það sem af er sumri hefur enda verið með eindæmum líflegt og myndirnar tala sínu máli.

Rétt er í þessu samhengi að minna á enska málsháttinn: „If it ain't broke, don"t fix it!" Fiktum ekki í því sem ekki þarfnast viðgerðar. Óþarfa fikt eykur til muna hættuna á bilun. Okkar krafa er einföld: Látum Ingólfstorg í friði!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×