Lífið

Hinsegin brúðkaup á Íslandi

Kærusturnar Eva María og Birna Hrönn eru farnar að bjóða upp á aðstoð við skipulagningu brúðkaups samkynhneigðra á Íslandi í gegnum fyrirtæki sitt Pink Iceland.
Kærusturnar Eva María og Birna Hrönn eru farnar að bjóða upp á aðstoð við skipulagningu brúðkaups samkynhneigðra á Íslandi í gegnum fyrirtæki sitt Pink Iceland. Mynd/Alisa Kalyanova
„Það eru komnar bókanir fyrir fjögur brúðkaup núna í sumar og við erum að fá fyrirspurnir lengra fram í tímann, til dæmis um eitt vetrarbrúðkaup í febrúar," segir Eva María Þórarinsdóttir, annar eigandi Pink Iceland, sem býður upp á brúðkaupsþjónustu fyrir samkynhneigða ferðamenn.

Ferðaþjónustufyrirtækið Pink Iceland var stofnað af kærustuparinu Evu Maríu og Birnu Hrönn Björnsdóttur í mars árið 2011 og sérhæfir það sig í ferðum fyrir samkynhneigða. Fljótlega fór fyrirtækinu að berast beiðnir um skipulagningu á hinsegin brúðkaupum. „Við ákváðum að anna þeirri eftirspurn og vorum allt í einu orðnar brúðkaupsskipuleggjendur og farnar að hafa áhyggjur af blómaskreytingum," segir Eva María og hlær. Eftirspurnin hefur verið mikil og þær hafa tekið að sér brúðkaup af öllum stærðargráðum. „Við höfum bæði verið með brúðhjónin tvö ein og svo er stærsta brúðkaupið okkar núna í sumar 80 manna," segir Eva María en hún er lærður ferðamálafræðingur og með gráðu í viðburðastjórnun svo hún þekkir þennan bransa.

Brúðkaupsgestir eru af öllum stærðum og gerðum og mikið til gagnkynhneigt fólk líka. „Við leggjum mikið upp úr því að hafa hinsegin brag á ferðunum okkar. Til dæmis deilum við ýmsum fróðleik um samfélag hinsegin fólks hérlendis og bendum á staði sem samkynhneigðir gætu haft áhuga á. Að sjálfsögðu eru gagnkynhneigðir þó velkomnir í ferðirnar okkar líka," segir Eva María, en vinsælt hefur verið að gestir fari í ferðir á vegum Pink Iceland í kringum brúðkaupin, jafnvel í boði brúðhjónanna.- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.