Viðskipti innlent

Flest Kaupþingsgögn komin frá Lúxemborg

Embætti sérstaks saksóknara hefur fengið afhent nánast öll gögn sem það lagði hald á í umfangsmikilli húsleit í Banque Havilland, sem áður hét Kaupthing Lúxemborg, í mars í fyrra. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur embættið þegar fengið afhent gögn sem tengjast fjórum stórum málum en á enn eftir að fá gögn vegna eins máls. Ástæða þess að enn er eftir að fá gögn úr einu máli er sú að rannsóknardómari í Lúxemborg komst að þeirri niðurstöðu að hluti þeirra ætti ekki erindi við rannsókn Sérstaks saksóknara. Embættið sætti sig við þá niðurstöðu og er hún ekki talin skipta sköpum fyrir niðurstöður rannsókna.

Á meðal þeirra gagna sem borist hafa til landsins eru gögn sem gegna lykilhlutverki í hinu svokallaða Aurum-Holding máli og gögn sem tengjast rannsókn á 171 milljón evra (27,9 milljarða króna) láni Kaupþings til Lindsor Holdings 6. október 2008.

Yfir 70 manns tóku þátt í húsleitinni í fyrra, sem stóð yfir í rúmar tvær vikur. Um er að ræða stærstu einstöku húsleitaraðgerð sem ráðist hefur verið í í Lúxemborg. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×