Viðskipti innlent

Fara fram á yfirmat í Aurum-málinu

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson
Sexmenningarnir, sem stefnt er í svokölluðu Aurum-máli slitastjórnar Glitnis, vísa á bug verðmati dómkvaddra matsmanna, sem hljóðar upp á núll til 929 milljónir króna, samanborið við þá sex milljarða sem Glitnir lánaði fyrir kaupum á hlut Fons í félaginu Aurum Holding.

„Matið er svo gallað að við munum fara fram á yfirmat, til dæmis er ekkert tillit tekið til eiginfjár og birgða upp á átta milljarða í matinu,“ segir í orðsendingu sem Jón Ásgeir Jóhannesson, einn hinna stefndu, sendi Fréttablaðinu í tilefni forsíðufréttar blaðsins í gær.

Í fréttinni sagði frá matsgerð Gylfa Magnússonar og Bjarna Frímanns Karlssonar á virði rúmlega fjórðungshlutar Fons í Aurum Holding, sem skaðabótamál slitastjórnarinnar snýst um. Niðurstaða þess er að miðað við miðgildi matsins hafi þrettánfalt matsverð verið greitt fyrir hlutinn með láni frá Glitni, sem lítið mun fást upp í.

Jón Ásgeir bendir enn fremur á að fyrir liggi verðmat frá Capacent á hlutnum sem sé algjörlega á skjön við mat Gylfa og Bjarna Frímanns. Stefndu í málinu hafa enn fremur vísað til þess að á þessum tíma hafi legið fyrir óskuldbindandi kauptilboð í hlutinn frá fyrirtækinu Damas Jewellery í Dubai upp á sex milljarða króna. - sh





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×