Skoðun

Sjóleiðin norður til Kína og umskipunarhöfn á Íslandi

Þór Jakobsson skrifar
Þegar línur þessar birtast lesendum verður kínverski forsætisráðherrann líklega kominn og farinn. En nú er boðuð heimsókn hans til Íslands, leiðtoga fjölmennasta ríkis veraldar. Koma hans er athyglisverður viðburður.

Atburður rifjast upp fyrir mér, raunar ein eftirminnilegasta stund starfsævi minnar. Það var morgunfundur einn á Akureyri meðan stóð þar á heimsþingi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar á sviði sjóveðurfræði 19. – 29. júní 2001. Veðurstofa Íslands stóð að þinginu í samvinnu við stofnunina, sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórn Íslands og Akureyrarbæ. Þetta var að líkindum ein viðamesta ráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi að því leyti að hún var mjög formleg og fór fram með hjálp túlka á fimm tungumálum. Nokkur hundruð allra þjóða kvikindi sóttu ráðstefnuna, fulltrúar þjónustustofnana ríkja víðs vegar um heim á sviði veðurs á sjó, öryggis, fjarskipta, samgangna o.s.frv. Mörg ríki höfðu sent einungis einn sérfræðing á þingið en stærri ríkin fylltu kvótann og sendu fimm sérfræðinga, auk aðstoðarmanna og túlka. Einn stóru hópanna var sendinefnd Kína.

Snemma á þinginu kom kínverskur fulltrúi að máli við mig og spurði kurteislega hvort kínverska sendinefndin gæti fengið tækifæri til að halda fund með sendinefnd gestgjafanna, okkar Íslendinga. Var látin í ljós ósk um að fræðast um sjóveðurþjónustu Íslendinga, veðurspár, ölduspár, hafís og öryggi á sjó.

Lét ég taka frá fundarherbergi fyrir fund eldsnemma morgun einn og fylkti liði með starfssystkinum mínum af Veðurstofu Íslands sem yrðu þann daginn, komin að sunnan. En ég var í rauninni eini formlegi fulltrúi Íslands sem sat allt þingið. Við vorum því jafn mörg og Kínverjarnir og sátum við nú þessa björtu morgunstund við stærsta hringborð sem völ var á í Íþróttahöllinni og kannski á allri Akureyri og ræddum í bróðerni um veður á sjó á Atlantshafi og íslensk vísindi. Við tókum til máls, Íslendingarnir, eitt af öðru og fræddum hina háttvísu sendinefnd um hvert okkar sérsvið. Allt okkar tal var jafnharðan túlkað á hið fjarræna mál af ungum snargáfuðum fegurðardísum í hópi gestanna.

Meðan á þessu stóð hvarflaði ekki að mér að þessi samkunda við hringborðið væri á nokkurn hátt sérstæð. Við landarnir töluðum á hinni alvanalegu heimstungu, enskunni, um fræði okkar eins og ótal oft áður, störf og aðferðir, við erlenda kollega sem auðsýnilega voru mjög áhugasamir og eðlilega forvitnir um störf okkar og reynslu í þessum heimshluta. Í hátt voru þeir eins og aðrir kínverskir kollegar sem ég hef hitt, kurteisir og hláturmildir þegar svo bauð við að horfa. Að svo búnu þakkaði kínverska sendinefndin innilega fyrir fundinn með okkur og mér var skenkt forláta blóðrautt bindi í fallegum kassa að skilnaði, bindi sem ég skarta öðru hverju enn þann í dag.

Ekki varð ég var við að kínverska sendinefndin hafi átt slíkan prívatfund með öðrum en okkur Íslendingum meðan stóð á þessu alþjóðlega þingi norður á Akureyri. En þegar frá leið var vissulega skemmtilegt til þess að hugsa að sendinefnd ríkis sem er fimm þúsund sinnum fjölmennara en við hér þjóðarkrílið í Atlantshafi hafi sýnt gestgjöfunum þá virðingu að vilja fræðast um aðferðir og verkefni sem hér er fengist við. Kínverskum kollegum okkar fannst greinilega nokkurs virði að kynna sér hvað við værum að dedúa og ég hef aldrei verið í vafa um að það var heilsað upp á okkur gestgjafana af einlægni og einskærri fræðilegri forvitni með alþjóðalega samvinnu í huga.

Ég klykki út með því að benda á fyrirsögn þessa greinarkorns með orðum sem ég hef klifað á í rúman aldarfjórðung og skorað í sífellu á íslensk stjórnvöld og athafnamenn að íhuga en líka AÐHAFAST, ekki bíða lengur og hlusta eftir fréttum að utan. Ísland verður senn í þjóðleið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og þjóðin ætti að sjá sér hag í því. Hún ætti að vinna sjálfstætt að því að undirbúa sjóleiðina NORÐUR til Kína í samvinnu við Norðurlönd og „engilsaxa", Bretland og Norður-Ameríku. Og bjóða svo þjóðum Evrópuskaga, Rússum og Kínverjum að koma hér við og eiga viðskipti við okkur.




Skoðun

Sjá meira


×