Skoðun

Hvers vegna er mikilvægt að gera sitt besta?

Bryndís Jónsdóttir og Oddný Sturludóttir skrifar
Í marsmánuði taka 10. bekkingar á landinu öllu þátt í PISA rannsókninni. PISA mælir kunnáttu 15 ára nemenda um allan heim í stærðfræði, lesskilningi og náttúrufræði. PISA er ekki próf sem nemendur undirbúa sérstaklega heldur mæling á hæfni og þekkingu ungmenna við lok skyldunáms. Það reynir á ályktunarhæfni, lesskilning og beitingu mismunandi aðferða. Niðurstöðurnar gefa okkur vísbendingar um hvar við stöndum vel og hvar síður og því betur sem nemendur leggja sig fram, því betri mynd af kunnáttu nemenda búum við yfir.

Undanfarin misseri hefur Reykjavíkurborg beint sjónum sínum sérstaklega að PISA, bæði niðurstöðunum og hvernig þær geta vísað veginn til öflugrar skólaþróunar. Borgin hefur stutt við samstarf faghópa kennara á unglingastigi og kennara úr Háskóla Íslands og stóraukið fræðslu um PISA og árangursríka kennsluhætti. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka vitund kennara, foreldra og nemendanna sjálfra um mikilvægi rannsóknarinnar fyrir reykvískt skólastarf. Skólayfirvöld í Reykjavík hafa frá fyrstu tíð unnið að þeirri vitundarvakningu í samstarfi við Samfok, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Rannsóknir hafa sýnt að engin ein breyta hefur viðlíka jákvæðari margföldunaráhrif til góðs fyrir árangur og vellíðan barna í skóla eins og jákvæð og hvetjandi viðhorf foreldra til náms barna sinna. En ekki bara til náms, heldur einnig til félagslífs, óformlegs náms og sköpunargleði.

Því hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við grunnskóla, félagsmiðstöðvar og foreldra, blásið til hæfileikakeppni meðal 15 ára ungmenna, Písa Keik 2012. Þar gefst 10. bekkingum tækifæri til að láta ljós sitt skína í gegnum sköpun og listir. Við biðjum unga fólkið að íhuga með okkur svarið við spurningunni: Hvers vegna finnst þér mikilvægt að gera þitt besta? Við vitum að það stendur ekki á svörunum. Og við skulum leggja við hlustir.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×