Skoðun

Lýðræði, ábyrgð og sanngirni

Eva Heiða Önnudóttir skrifar
Því hefur verið fleygt fram í opinberri umræðu að kjósendur geti sjálfum sér um kennt um það sem illa fer á vettvangi stjórnmála, þar sem þeir kusu „þetta“ yfir sig. Jafnvel eru þessi rök notuð fyrir því að ekki skuli draga stjórnmálamenn til ábyrgðar, þar sem þeir starfa í umboði sinna kjósenda.

Umræða af þessu tagi var áberandi fyrir skömmu varðandi ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Hér tel ég að verið sé að rugla þrennu saman; 1) ábyrgð, 2) að hafa hlotið atkvæði þeirra sem töldu flokkinn vera hæfastan til að leysa úr pólitískum verkefnum og 3) sanngirni.

Ábyrgð getur ekki verið annað en að standa skil gerða sinna eftir að gjörningur hefur átt sér stað; jafnvel þó að flokkur hafi hlotið kosningu þeirra sem töldu hann vera best til þess fallinn að takast á við framtíðarverkefni á vettvangi stjórnmála. Það að kjósendur hafi „kosið þetta yfir sig“ er ekki óútfylltur tékki til flokka fyrir þeirra gjörningum eftir kosningar. Í því felst ekki að kjósendur beri ábyrgð á gerðum kjörinna stjórnvalda. Í næstu kosningum, og jafnvel fyrr, þurfa kjörnir fulltrúar að standa skil gerða sinna – og sannfæra kjósendur um að þeir séu hæfasti flokkurinn til að takast á við framtíðarverkefni.

Umræðan um ákæruna á hendur Geir H. Haarde snýst um ábyrgð. Hún snýst ekki um að kjósendur geti sjálfum sér um kennt þar sem þeir kusu flokk Geirs H. Haarde. Það sem flækir umræðuna enn frekar er að umræðan snýst líka um sanngirni og að Ísland er kunningjasamfélag. Undirliggjandi er spurningin um hvaða sanngirni felist í því að draga hann einan til saka? Í hinu íslenska kunningjasamfélagi getur verið erfitt að greina í umræðunni hvenær er verið að tala um persónu Geirs H. Haarde og hvenær er talað um stjórnmálamanninn Geir H. Haarde. Ákæran er á hendur honum sem stjórnmálamanni, en það er persónan sem mun taka afleiðingum af niðurstöðum dóms, hvort sem hann verður fundinn saklaus eða ekki.

Hér er ekki verið að leggja dóm á sekt eða sakleysi Geirs H. Haarde; það mun Landsdómur væntanlega skera úr um. Þessi stutti pistill er eingöngu innlegg í þarfa umræðu um ábyrgð stjórnmálamanna. Auðveldlega má færa rök fyrir því að betur má gera ef duga skal í íslenskum stjórnmálum, en um leið verður að gæta sanngirni.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×