Skoðun

Hvað þurfa menn að afreka?

Sigurður A. Magnússon skrifar
Hvað þurfa menn að afreka til að teljast verðugir umbunar og uppskera ávextina af hæfileikum sínum og framlagi til menningar eða annarra þjóðnytja? Spyr sá sem ekki veit! En spurningin vaknar óhjákvæmilega í sambandi við nýlega úthlutun úr Starfslaunasjóði rithöfunda; og vera má, að forsvarsmenn hans eigi einhver viðhlítandi svör við henni.

Svo vill nefnilega til, að í þetta sinn var gengið framhjá einum efnilegasta og ötulasta rithöfundi Íslendinga, Bjarna Bjarnasyni (f. 1965), sem á nokkrum síðustu árum hefur verið afkastameiri og afkastabetri en velflestir, ef ekki allir, jafnaldrar hans. Í því sambandi má benda á, að síðan 1992 hefur hann gefið út átta skáldsögur ásamt skáldævisögu og ritgerðasafninu „Boðskort í þjóðarveislu".

Síðustu þrjú árin hefur hann sent frá sér þrjár veigamiklar skáldsögur, sem vakið hafa almenna athygli, og fengið tvö af skáldverkum sínum þýdd á arabísku og þýsku. Skáldverkin þrjú eru „Leitin að Audrey Hepburn" (2009), „Mannorð" (2011) og „Endurkoma Maríu" (2012). Bjarni var sæmdur bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar 1998 og Laxness-verðlaununum 2001. Þá má einnig geta þess, að hann kom fram á Bókamessunni í Frankfurt á liðnu ári.

Í þessu kræfa samfélagi gagnsærra pólitíkusa og misjafnlega spilltra broddborgara (samanber lífeyrissjóðina) má heita, að heiðarleg og marksækin vinnubrögð þyki sveitó eða púkó. Hvers á Bjarni Bjarnason að gjalda? Má vera, að hann þyki of vel kvæntur til að verðskulda viðurkenningu fyrir heiðvirð og frábær vinnubrögð? Það væri svo sem eftir öðru á þessum kjörlendum kunningsskapar og pólitísks siðleysis!
Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×