Lewis Hamilton á McLaren er sjöundi sigurvegari ársins í jafn mörgum mótum. Hann sigraði Kanadakappaksturinn eftir æsispennandi kappakstur.
Þetta er jafnframt þriðji sigur hans í Kanada á ferlinum. Sebastian Vettel ræsti á ráspól en missti niður forystuna snemma. Lewis, Fernando Alonso og Vettel skiptust þá um forystuna. Þegar fimm hringjum var ólokið tók Lews fram úr Alonso með glæsibrag.
Í öðru sæti varð Romain Grosjean á Lotus-bíl. Sergio Perez á Sauber-bíl varð þriðji. Vettel fór inn á viðgerðarhléið seint í kappakstrinum og endaði fjórði eftir að hafa náð að taka fram úr Alonso sem gerði mistök og endaði fimmti.
Mercedes-liðið var í basli með bíl Michael Schumacher. Afturvængurinn festist opinn og hann eyddi löngum tíma stopp fyrir utan skúrinn.
Úrslitin hrista vel upp í heimsmeistarakeppni ökuþóra. Lewis er nú efstur, Alonso annar, Vettel þriðji og Mark Webber fjórði. McLaren færist líka nær Red Bull í heimsmeistarakeppni bílasmiða.
Hamilton sjöundi sigurvegarinn í jafnmörgum mótum
