Handbolti

Vukovic: Ísland mun ekki sakna Ólafs mikið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Drago Vukovic í leik með Lübbecke í Þýskalandi.
Drago Vukovic í leik með Lübbecke í Þýskalandi. Nordic Photos / Getty Images
Skyttan Drago Vukovic, einn besti leikmaður króatíska landsliðsins, segir að Ólafur Stefánsson sé frábær leikmaður en að Ísland muni standa sig vel án hans.

Ísland og Króatía eru saman í riðli á EM í Serbíu og liðin mætast í fyrtu umferð riðlakeppninnar á mánudaginn. Króatar eru nánast á heimavelli enda nágrannar Serbíu.

„Þetta verður erfiður opnunarleikur. Ísland er með mjög sterkt lið og marga leikmenn úr þýsku úrvalsdeildinni," sagði Vukovic við fjölmiðla í heimalandinu. „Liðið spilar mjög sterkan varnarleik með Guðjón Val Sigurðsson sem er frábær hraðaupphlaupsmaður."

„Við verðum að halda við okkar leikskipulag og stjórna leiknum ef við ætlum okkur að ná í tvö stig."

Ólafur Stefánsson missir af mótinu þar sem hann er nýkominn aftur af stað vegna meiðsla. „Hann er goðsögn þeirra Íslendinga. Hann hefur unnið marga leiki fyrir Ísland en Alexander Petersson hefur verið frábær með Füchse Berlin og getur fyllt í hans skarð. Íslendingar munu ekki sakna Ólafs mikið."

Hann tjáði sig einnig um lið Slóvena og Noregs sem eru í sama riðli. „Við mættum Noregi á EM í Austurríki og það var erfiður leikur. Það má ekki vanmeta Norðurlandaliðin. Slóvenía er með ungt lið og afar metnaðargjarnt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×