Innlent

Lisbeth Berg-Hansen: Refsiaðgerðir gegn Íslandi ef ekki verður samið

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir að hvorki Íslendingar né Færeyingar hafi sýnt neinn samningsvilja á fundinum í makríldeilunni Lundúnum í gær. Hún segir að haldi Íslendingar og Færeyingar að veiða jafn mikið án kvóta, eins og allt útlit er fyrir, segist hún ætla beita sér fyrir refsiaðgerðum gegn ríkjunum.

Engin niðurstaða varð af samningafundi Steingríms J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra með sjávarútvegsráðherrum Noregs og Færeyja og Maríu Damanakí, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins á samningafundi í Lundúnum í gær.

Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, sagði í viðtali við norska ríkissjónvarpið NRK í gærkvöldi að hún væri vonsvikin að engin niðurstaða hafi náðst á fundinum og hvorki Ísland né Færeyingar hafi sýnt neinn vilja til að semja.

Eðli málsins samkvæmt er þetta allt önnur upplifun en hjá Steingrími J. Sigfússyni, sem sagði í fréttum okkar í gær að ekki væri við Íslendinga að sakast.

Lisbeth Berg-Hansen sagði í viðtalinu við NRK að Norðmenn myndu beita sér fyrir því að Ísland verði beitt viðurlögum ef ríkið heldur áfram að veiða án þess að hafa hlutdeild í makrílkvótanum, en Íslendingar hafa veitt 16-17 prósent af öllu sem veitt er af makríl á undanförnum árum, án kvóta.

Fréttamaður NRK spurði Berg-Hansen hvort hún væri að vísa til þeirrar vinnu sem væri í gangi hjá Evrópusambandinu.

Berg-Hansen sagði að Evrópusambandið hefði sinnt sínum undirbúningi en það myndu Norðmenn gera einnig. Þá var hún spurð hvaða aðgerðir hún væri að tala um af hálfu Norðmanna, en vildi ekkert gefa upp.

Vinnan sem Lisbeth Berg-Hansen er að vitna til hjá Evrópusambandinu er að sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins samþykkti fyrr á þessu ári tilskipun um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar veiðar úr sameiginlegum stofnum sem deilt er um, eins og til dæmis makríl, en reglugerðin felur ekki aðeins í sér löndurbann á íslensk skip heldur einnig viðskiptaþvinganir eins og takmarkanir á sölu fiskiafurða. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×