Viðskipti innlent

Endurálagning RSK getur veitt náðarhögg

"Í ýmsum tilvikum hafa umrædd fyrirtæki skipt um hendur og nýir eigendur keypt þau í góðri trú um að það sé ekkert athugavert með skattskil þeirra“ segir Vilhjálmur Egilsson. fréttablaðið/GVA
"Í ýmsum tilvikum hafa umrædd fyrirtæki skipt um hendur og nýir eigendur keypt þau í góðri trú um að það sé ekkert athugavert með skattskil þeirra“ segir Vilhjálmur Egilsson. fréttablaðið/GVA
Sum þeirra fyrirtækja sem þurfa að greiða endurálagningu skatta gætu farið á hausinn. Greiða þarf skattaskuldina áður en endanleg niðurstaða fæst um lögmæti endurálagningarinnar. Vilhjálmur Egilsson segir málið bagalegt.

„Upphæðirnar sem við höfum frétt af eru afar háar og gætu í einhverjum tilvikum veitt fyrirtækjunum náðarhögg," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), um endurálagningar vegna gjaldabreytinga sem embætti ríkisskattstjóra hefur verið að senda út til fyrirtækja. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að gjaldabreytingarnar hefðu alls numið sex milljörðum króna á árinu 2011. Á meðal þeirra sem hafa fengið tilkynningar um endurálagningu eru Skipti, móðurfélag Símans, sem þarf að greiða á bilinu 800 til 1.800 milljónir króna og Húsasmiðjan sem þarf að greiða allt að 700 milljónir króna. Á meðal þeirra mála sem hafa leitt til endurálagningar eru skuldsettar yfirtökur þar sem gjaldfærslu á vöxtum lána sem tekin voru til að fjármagna yfirtökuna var hafnað. Slík mál eru oft kölluð öfugir samrunar, þar sem einkahlutafélagi sem kaupir rekstrarfélag er rennt inn í það með eignum og skuldum.

Vilhjálmur telur að margir tugir fyrirtækja hafi fengið endurálagningu vegna slíkra samruna. „Við höfum fengið allnokkrar tilkynningar um þetta. Frá því sem ég hef heyrt þá myndi ég álykta að þetta væru einhverjir tugir fyrirtækja. Þetta er eftirá-herferð hjá ríkisskattstjóra gegn þessum öfugu samrunum og það er farið mörg ár aftur í tímann. Í ýmsum tilvikum hafa umrædd fyrirtæki skipt um hendur og nýir eigendur keypt þau í góðri trú um að það sé ekkert athugavert með skattskil þeirra. Þetta er því afar bagalegt."

Að sögn Vilhjálms hefur hann meðal annars heyrt af sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa fengið háar endurálagningar vegna öfugra yfirtaka. „Hér á árum áður voru mörg sjávarútvegsfyrirtæki tekin af markaði í kjölfar yfirtaka. Þá var þessi leið oft farin. Þau eru nú að lenda í endurálagningu."

Ágreiningur um skattakröfu leiðir ekki til þess að gjaldandinn fái frest til að greiða hana. Því þurfa fyrirtækin sem um ræðir að greiða ætlaða skattaskuld sína jafnvel þótt þau kjósi að vísa ákvörðuninni um endurálagningu til yfirskattanefndar. Vilhjálmur segir það bagalegt að fá ekki úr lögmætinu skorið fyrst. „Það er ekki gott þegar fyrirtækin þurfa að leggja út fyrir þessu og verða fyrir miklum kostnaði, jafnvel gjaldþroti, en síðan kemur í ljós að þetta hefur verið ólöglega gert allan tímann. Við höfum rætt við ríkisskattstjóra um þessi mál. Hann er ekki að fara að draga aðgerðir sínar til baka. Því er spurning um hversu hratt yfirskattanefnd úrskurðar í málunum og hvað ríkisskattstjóri mun gera ef hún úrskurðar skattgreiðendum í vil." thordur@frettabladid.is

Nýtanlegt tap lækkað um 47 milljarðaTil viðbótar við gjaldabreytingar sem lagðar hafa verið á félög og fyrirtæki lækkaði ríkisskattstjóri yfirfæranlegt tap sem þau ætluðu að nýta sér til skattafrádráttar um 46,7 milljarða króna. Sú lækkun nam einungis 86 milljónum króna á öllu árinu 2010 og því ljóst að um gríðarlega aukningu er að ræða.

Heimildir Fréttablaðsins herma að ástæða þess að upphæðin hafi verið svona há í fyrra sé að fjölmörg félög og fyrirtæki sem hafi farið illa út úr bankahruninu, en hafi síðan verið fjárhagslega endurskipulögð og haldið lifandi þrátt fyrir að bera ekkert nema tap, hafi ætlað að nýta tapið til frádráttar. Því hafi ríkisskattstjóri hafnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×