Innlent

Verkamenn færa Óþekkta embættismanninn að Tjörninni

BBI skrifar
Óþekkti embættismaðurinn á leið á Kampavínsbarinn?
Óþekkti embættismaðurinn á leið á Kampavínsbarinn? Mynd/Listasafn Reykjavíkur
Útlistaverk Magnúsar Tómassonar af Óþekkta embættismanninum var flutt af verustað sínum út að Tjarnarbakkanum þar sem embættismaðurinn mun framvegis standa á móti Ráðhúsinu. Jón Gnarr mun afhjúpa verkið á nýja staðnum á morgun klukkan hálf þrjú.

Óþekkti listamaðurinn stóð áður á torginu fyrir aftan Jómfrúna á Lækjargötunni. Flokkur verkamanna boraði hann lausan í gær til að færa hann á nýjan stað. Framkvæmdirnar voru allar festar á filmu eins og sést á myndasafninu hér til hliðar. Á einni myndinni virðist helst eins og Óþekkti embættismaðurinn ætli að bregða sér á Kampavínsklúbbinn við Lækjargötuna.

Ákveðið var að flytja Óþekkta embættismanninn og koma honum á fjölfarnari stað svo fleiri fengju að njóta hans. „Menn töldu að hann væri ekki nógu sýnilegur. Þetta er spurning um að fleiri fái að njóta listaverkanna í borginni, alveg eins og Vatnsberinn eftir Ásmund var fluttur á Lækjargötuna," segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri hjá Reykjavíkurborg.

Bjarni telur að Óþekkti embættismaðurinn sé nú kominn á stað sem hæfir honum betur. „Hann verður við Ráðhúsið og nær Alþingishúsinu og stjórnsýslunni allri. Þetta er mjög skemmtilegt," segir hann.

Óþekkti embættismaðurinn er eftir Magnús Tómasson. Verkið er málmskúlptúr úr bronsi og basalti. Verkið var gert árið 1993, en keypt og sett upp af Reykjavíkurborg árið 1994




Fleiri fréttir

Sjá meira


×