Innlent

Gagnrýna nýtt gjald fyrir kafanir í Silfru

Snorkl og köfun í Silfru nýtur vaxandi vinsælda. Hér flýtur eigandi Arctic Adventure í snorklbúningi á yfirborði gjárinnar og kannar undirdjúpin.
Snorkl og köfun í Silfru nýtur vaxandi vinsælda. Hér flýtur eigandi Arctic Adventure í snorklbúningi á yfirborði gjárinnar og kannar undirdjúpin. Mynd/Arctic Adventures
Eigandi Arctic Adventures segir nýtilkomið gjald Þingvallanefndar á kafara og snorklara í gjánni Silfru mismuna gestum þjóðgarðsins og koma á óvart. Helmingur gjaldsins fari væntanlega í laun starfsmanns sem eigi að rukka það.

„Þetta er ævintýralega skrýtið,” segir Torfi Yngvason, eigandi Arctic Adventures, um nýtt 750 króna þjónustugjald sem Þingvallanefnd leggur á þá sem kafa eða snorkla í gjánni Silfru.

Torfi segir að í hálft annað ár hafi starfað nefnd með fulltrúum Sportkafarafélagsins, Þingvallanefndar og fyrirtækjanna sem nýta Silfru. Þar hafi verið málefnaleg umræða og áhersla á samstarf og almenna sátt. Runnið hafi tvær grímur á menn eftir viðtal við Ólaf Haraldsson þjóðgarðsvörð í Fréttablaðinu í vor þar sem málið virtist lengra komið en þeir töldu.

„Okkur var þá tjáð að við þyrftum engar áhyggjur að hafa því það yrði ekkert gert fyrr en í fyrsta lagi eftir sumarið og með ríkum fyrirvara,“ segir Torfi. Annað hljóð hafi verið komið í strokkinn á fundi 21. júní. Þar hafi Álfheiður Ingadóttir, formaður Þingvallanefndar, flutt þau tíðindi að þjónustugjald yrði lagt á strax frá 1. júlí.

Torfi segir hefð fyrir því í ferðaiðnaðinum að slíkar breytingar séu gerðar með eins árs fyrirvara enda séu verðskrár gefnar út og ferðir gjarnan seldar með löngum fyrirvara. Litlar skýringar hafi fengist á því í hvað þjónustugjaldið ætti að fara og hvernig og hver ætti að innheimta það. Samkvæmt lögum megi ekki innheimta þjónustugjald nema til að mæta kostnaði við veitta þjónustu.

„Það eina sem er víst er að þau ætla að ráða heilan starfsmann til að standa þarna og rukka okkur. Þetta er algjörlega fáránlegt. Væntanlega fer helmingurinn af gjaldinu í að borga honum laun,“ segir Torfi sem kveður vissulega þörf á þjónustu við Silfru og fyrir hana séu köfunarfyrirtæki reiðubúin að greiða. Fyrst og fremst vanti salerni og aðstöðu til að skipta um föt.

Viðkomandi starfsmaður mun einnig eiga að sinna öryggisgæslu. Torfi segir lítið gagn af manni uppi á bakka við köfunarslys. Auk þess fari yfir sjötíu prósent af gestum Silfru ekki í köfun heldur snorkl og séu ekki í neinni hættu því þeir fljóti á yfirborðinu.

Að sögn Torfa sinna starfsmenn þjóðgarðsins nú þegar sams konar störfum og ætluð eru hinum nýja starfsmanni. „Ég skil ekki hvers vegna við eigum að borga sérstaklega fyrir þessa þjónustu þegar allir aðrir fá hana ókeypis. Við hljótum að eiga að fá einhverja sértæka þjónustu umfram það sem allir aðrir gestir garðsins fá en það fást engin svör um það,“ segir Torfi.

Byrja átti að innheimta þjónustugjaldið við Silfru í fyrradag. Þá var áðurnefndur starfsmaður ekki mættur. Torfi segir að á fundi í síðustu viku hafi þjóðgarðsvörður sagst ætla að reyna að fá gjaldinu frestað um tvo mánuði. Fyrirtækin vilji hins vegar fresta því um eitt ár. Engar fréttir hafi borist af málinu síðan.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×