Innlent

Kauphallarstjóri ánægður með breytt umhverfi

Fjórar konur skipa fimm manna stjórn Regins. Elín Jónsdóttir, Fjóla Þ. Hreinsdóttir, Guðríður Friðriksdóttir, Hjördís Halldórsdóttir og Stanley Pálsson.
Fjórar konur skipa fimm manna stjórn Regins. Elín Jónsdóttir, Fjóla Þ. Hreinsdóttir, Guðríður Friðriksdóttir, Hjördís Halldórsdóttir og Stanley Pálsson. Fréttablaðið/valli
Hlutabréf í fasteignafélaginu Regin, sem meðal annars á og rekur Smáralind og Egilshöll, voru tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands í gærmorgun. Gengi bréfa félagsins stóð í stað í 8,2 í lok dags, en heildarvelta viðskipta með bréf í félaginu nam tæplega 40 milljónum á þessum fyrsta viðskiptadegi. Með Regin hafa nú tvö ný félög verið skráð á markað frá hruni, en auk Regins hefur smásölurisinn Hagar, sem á og rekur Bónus og Hagkaup, einnig verið skráður á markað.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands segist ánægður með það umhverfi sem sé að verða til eftir hrunið, þar sem eignarhald á fyrirtækjum sé dreifðara en var fyrir hrun fjármálakerfisins og hlutabréfamarkaðarins, fyrir tæplega fjórum árum, og konur í ríkara mæli við stjórnvölinn, en 35 prósent stjórnarmanna í skráðum félögum á Íslandi eru nú konur. Til samanburðar er meðaltalið um 13 prósent í Evrópu, eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 fyrir tveimur vikum. „Þessar breytingar eru mjög til bóta að mínu mati,“ sagði Páll eftir að bjöllunni hafði verið hringt í Kauphöllinni, til marks um að viðskipti með bréf Regins á skráðum markaði væru formlega hafin.

Landsbankinn, sem átti Regin að öllu leyti, hefur nú selt tæplega 75 prósent af eign sinni í félaginu, en er þrátt fyrir það stærsti eigandi félagsins með ríflega fjórðungshlut. Meðal annarra stórra eigenda eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,2 prósenta hlut og Gildi lífeyrissjóður með ríflega fjögurra prósenta hlut.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×