Innlent

Fjöldi dýra drepist í Miklakonungsdal

Sjór og há fjöll girða dalinn af svo þar leikur eldurinn lausum hala.
Sjór og há fjöll girða dalinn af svo þar leikur eldurinn lausum hala. nordicphotos /afp
„Ástandið er hrikalegt,“ segir Vera Asscheman, íbúi á spænsku eyjunni La Gomera, einum af Kanaríeyjum. Þar hafa skógareldar logað í níu daga og ekki sér fyrir endann á þeim. „Slökkviliðsmenn voru að segja að þeir muni ekki ráða niðurlögum eldanna næsta sólarhringinn,“ segir hún.

Asscheman býr í höfuðstað eyjarinnar, San Sebastian, sem er ekki langt frá eldunum.

Helsti vandinn er sá að mestu eldarnir eru í dalnum Valle Gran Rey, eða Miklakonungsdal, en hann er djúpur og einungis einn vegur liggur í hann. „Eins og gefur að skilja er sá vegur lokaður og eina leiðin sem menn hafa til að komast að eldinum er úr lofti. Síðan kom sú staða upp fyrir tveimur dögum að menn þóttust hafa slökkt eldana svo slökkviliðsflugvélarnar voru sendar til meginlands Spánar. En þá gerði mikið rok og eldur kom upp á nýjan leik og þá tók það heilan sólarhring að fá vélarnar aftur á svæðið. Svo þetta var mjög misráðið.“

Það hefur þurft að flytja um fimm þúsund manns sjóleiðina úr dalnum. „Það hafa ekki orðið slys á fólki svo ég viti en í þessum dal er nokkuð dýralíf, þar eru til dæmis margar geitur. Þar að auki eru margir með nokkuð af skepnum í þar til gerðum görðum og búrum svo þetta er mikill harmleikur fyrir marga og að sjálfsögðu er mjög þungt yfir fólki hér í bænum.“

Íbúar á La Gomera hafa lifibrauð sitt af ferðamennsku og segir Asscheman fólk hafa miklar áhyggjur af afleiðingum skógareldanna til lengri tíma. „Hér kemur fólk aðallega til þess að njóta fallegrar náttúru. Ég settist hér að fyrir fimmtán árum og það sem heillaði mig mest var náttúrufegurðin. En það er ekki við því að búast að margir leggi leið sína hingað til að njóta náttúrufegurðarinnar eftir þennan harmleik svo við höfum öll áhyggjur af lifibrauðinu.“

Hún sagðist ekki vita af neinum Íslendingum sem væru þar á ferð. „En ég veit að þeir hafa verið fjölmennir hér svo það kæmi mér ekki á óvart,“ segir hún.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×