Handbolti

Þjálfari Svartfjallalands: Þurfum kraftaverk til að vinna Noreg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svartfellingar fagna hér sæti í úrslitaleiknum í gær.
Svartfellingar fagna hér sæti í úrslitaleiknum í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Dragan Adzic, þjálfari Svartfjallalands, setti alla pressuna yfir á norska landsliðið fyrir úrslitaleik Noregs og Svartfjallalands á EM kvenna í handbolta sem fer fram í Serbíu klukkan fjögur í dag.

Svartfjallaland vann eins marks sigur á Serbíu í sínum undanúrslitaleik en norsku stelpurnar höfðu áður unnið ellefu marka sigur á Ungverjalandi í hinum undanúrslitaleiknum.

„Við þurfum kraftaverk til þess að vinna Noreg. Þær hafa unnið næstum allt og við verðum að spila fullkomnan leik á öllum sviðum á móti þeim til þess að eiga möguleika," sagði Dragan Adzic en þessi lið mættust einnig í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í London í ágúst. „Aðeins fullkomnun er nógu gott til þess að vinna Noreg," ítrekaði Adzic.

Svartfjallaland missti þrjá lykilmenn eftir Ólympíuleikana þar á meðal hina frábæru Bojana Popovic en liðið hefur spilað frábærlega í Serbíu og vann meðal stórsigur á Íslandi í fyrsta leik.

Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, tók inn sex nýliða í norska landsliðið frá ÓL í London en hefur enn á ný sett saman frábært lið þar sem margir leikmenn eru að bera upp leik liðsins og sterk liðsheild gerir andstæðingum þeirra afar erfitt fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×