Handbolti

Ungversku stelpurnar unnu bronsið eftir framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Ungverjaland tryggði sér þriðja sætið á EM kvenna í handbolta í Serbíu eftir 41-38 sigur á heimakonum í Serbíu í framlengdum bronsleik í Belgrad í dag. Noregur og Svartfjallaland spila til úrslita seinna í dag.

Þetta eru fjórðu verðlaun ungverska kvennalandsliðsins á EM kvenna en Ungverjar urðu Evrópumeistarar 2000 og unnu einnig brons 1998 og 2004.

Ungverska liðið komst ekki á síðustu tvö stórmót en endaði í 10. sæti á EM 2010. Liðið hefur stigið stórt framfaraskref undir stjórn Norðmannsins Karl Erik Böhn.

Viktória Rédei Soós skoraði níu mörk fyrir ungverska liðið en Zsuzsanna Tomori var með átta mörk. Andrea Lekic, Biljana Filipovic og Svetlana Ognjenovic skoruðu allar sjö mörk fyrir Serbíu.

Ungverjaland var 21-19 yfir í hálfleik en Serbar komust mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleiknum. Serbar unnu síðustu sex mínútur venjulegs leiktíma 3-1 og tryggðu sér framlengingu.

Serbía skoraði síðan fyrsta markið í framlengingunni en Ungverjar náðu svo frumkvæðinu og lögðu grunninn að sigrinum með því að skora fjögur mörk í röð og komast í 41-37. Eftir það voru úrslitin ráðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×