Handbolti

Sebrahestarnir slátruðu ljónunum

Alfreð tók sinn gamla vin og félaga, Guðmund Guðmundsson, í bakaríið í kvöld.
Alfreð tók sinn gamla vin og félaga, Guðmund Guðmundsson, í bakaríið í kvöld.
Sebrahestarnir frá Kiel voru fyrstir til þess að leggja Rhein-Neckar Ljónin í þýsku deildinni í kvöld. Meistarar Kiel gerðu gott betur því þeir hreinlega slátruðu lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar, 17-28. Kiel komst með sigrinum upp í toppsæti þýsku úrvalsdeildarinnar á nýjan leik.

Það var talsverður taugatitringur í mönnum í upphafi leiks og fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en eftir tæpar sjö mínútur. Það gerði Christian Zeitz með þrumuskoti.

Sóknarleikurinn hjá Löwen gekk afar illa og í stöðunni 3-8 var Guðmundi Guðmundssyni, þjálfara Löwen, nóg boðið og hann tók leikhlé.

Varnarleikur Kiel var með hreinum ólíkindum. Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, algjörlega búinn að kortleggja sóknarleik Ljónanna sem áttu engin svör og komu vart skoti á markið. Á stunum neyðarskotum sem Thierru Omeyer varði næsta auðveldlega.

Þegar blásið var til leikhlés var munurinn sjö mörk, 7-14. Hreint ótrúlegar hálfleikstölur og Sebrahestarnir í raun að gera grín að Ljónunum. Ef Niklas Landin hefði ekki varið vel í marki Löwen hefði munurinn verið enn stærri.

Þrumuræða Guðmundar í leikhléi skilaði litlu því aftakan hélt áfram í síðari hálfleik. Hans menn áttu sem fyrr engin svör við leik Kiel og meistararnir sigldu þægilegum sigri í höfn.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Kiel en Aron Pálmarsson komst ekki á blað. Thierry Omeyer átti síðan ótrúlegan leik í marki Kiel og varði vel yfir 20 skot. Alexander Petersson skoraði aðeins tvö mörk fyrir Löwen í kvöld en hann komst hvorki lönd né strönd.

Ólafur Gústafsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Flensburg í kvöld og skoraði tvö mörk í öruggum sigri, 37-26, á Neuhausen. Fín byrjun hjá Ólafi með Flensburg sem er í fimmta sæti deildarinnar.

Sverre Andreas Jakobsson og félagar í Grosswallstadt töpuðu naumlega gegn Göppingen, 27-28. Liðið í erfiðum málum í næstneðsta sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×