Skoðun

Lýðfrelsi og efnahagsmál í fyrsta sæti

Hreggviður Jónsson skrifar
Sumardaginn fyrsta var tilkynnt í Þýskalandi að hagvöxtur væri töluvert meiri en áætlað hefði verið og spáin fyrir næsta ár var einnig bætt. Þetta segir töluvert um styrk Evrópu og evrunnar. Þjóðverjar tóku þann kost að herða stjórn á fjármálum sínum eftir yfirtökuna á gjörsamlega gjaldþrota efnahag A-Þýskalands. Það hefur tekið þá nær 20 ár að ná endum saman, spara og spara. Nú lætur árangurinn ekki á sér standa.

Á meðan evran hefur núna lengi verið á svipuðu róli hefur gullið hrapað um 15%. Þannig að fjárfesting í gulli er ekki eins ljómandi góð og sumir halda.

Kínverski forsætisráðherrann Win Jiabao, sem heimsótti Ísland, hélt einnig til Þýskalands. Ferðin var ekki út í bláinn, heldur afleiðing af sterku sambandi Þýskalands og Kína í gjaldeyris- og efnahagsmálum.

Kínverjar hafa gert sér grein fyrir því að sterk evra þýðir áframhaldandi stöðugan útflutning frá Kína til sterkasta útflutningssvæðis þeirra, þar sem þeir fá besta verðið. Það væri betur, ef menn gerðu sér almennt grein fyrir þessum staðreyndum, hvað varðar útflutning frá Íslandi.

Hér á landi er í sífellu verið að klifa á að evran sé svo vond. Hún er ekki verri en svo að við seljum nánast allar okkar afurðir í evrum og á evrusvæðinu. Af hverju? Ástæðan er augljós, þar fáum við hæsta verðið fyrir afurðir okkar. Félli evran yrði fjöldagjaldþrot á Íslandi. Það getur ekki verið tilviljun, að Kaupfélag Skagfirðinga og Samherji eru nú að kaupa eitt af olíufélögum landsins. Þetta er ágóðinn af sölu afurða þeirra í Evrópu. Hagnaðurinn af evrunni. Hitt er að væntanlega er hér um hringamyndun að ræða og a.m.k. í USA væri slíkt stöðvað.

Menn hafa hrópað í stórum kór, hve evran væri að fara illa með löndin í suðri, eins og Grikkland. Er þetta rétt? Nei, sannleikurinn er nefnilega sá, að þessar þjóðir hafa lifað um efni fram um árabil, tekið lán á lán ofan til að halda uppi hærri lífsskilyrðum, en þjóðin getur borið. Nú er komið skuldadögunum. Grikkir hafa, sem dæmi, fjölgað opinberum störfum um helming síðasta tug ára og greitt hærri laun, en ríkið réði við. Eitt dæmið er ríkisjárnbrautin, þar vinna fimm sinnum fleiri starfsmenn, en hjá Svíum, sem eru með svipaðan rekstur á járnbrautum. En ekki er þetta nægilegt, heldur greiddu Grikkir helmingi hærri laun en Svíar gera! Þannig er spillingin grasserandi hjá Grikkjum, þar sem aðeins hluti af sköttunum er innheimtur. Er nokkur furða, að gerðar séu lágmarkskröfur til Grikkja þegar kemur að hjálp við þá? Og þeir hafa fengið 75% af skuldum bankanna strikaðar út.

Það vantar lýðfrelsi og festu hjá þessum þjóðum og Íslendingum líka. Án lýðfrelsis er lýðræðið tómt snakk. Við erum búin að fá nóg af hagsmunasósíalisma Sjálfstæðisflokksins og viljum alvöru lýðfrelsi.




Skoðun

Sjá meira


×